139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við þetta frumvarp og vil byrja á að þakka þingmönnum fyrir þátttöku í atkvæðagreiðslu um afbrigði sem varð að fara fram til að þessi breytingartillaga kæmist á dagskrá og hægt væri að ræða hana.

Tillagan tekur heila síðu í þingskjalastærð og er nokkuð viðamikil miðað við efni hennar sem er eingöngu það að tvö orð leysa af hólmi önnur tvö orð í frumvarpinu öllu, nefnilega „embætti landlæknis“ á að koma í stað „Landlæknir – lýðheilsa“.

Samkvæmt eðli máls ætla ég ekki að taka mikinn þátt í þeim harðvítugu umræðum sem voru um frumvarpið áðan. Reyndar kemur manni á óvart svo nöturlegur tónn í þeirri umræðu því að úr fjarlægð virðist það vera hið besta mál að sameina þessar tvær stofnanir og hefði kannski aldrei átt að skilja þær í sundur. En ég ætla sem sagt ekki að taka efnislega þátt í þessari umræðu nema af því að ég sá og heyrði að síðasti hv. ræðumaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, var pirraður yfir að fjallað væri um nafn stofnunarinnar — væntanlega á þeim 12 línum eða svo sem er gert í nefndaráliti meiri hlutans fyrir 2. umr. og þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir — vil ég segja að vissulega er heiti stofnana ekki kjarni málsins en það er heldur enginn hégómi. Heiti stofnana, alveg eins og manna, staða og hvers annars sem við þurfum að nefna með nafni, á sér menningarlegar forsendur, söguleg rök og þegar um vinnustað er að ræða varðar það líka þann brag sem á kemst innan stofnunarinnar og þann starfsanda sem menn vinna sín verk í.

Í 2. umr. um málið beindi ég tilmælum í nokkuð losaralegri og á köflum grallaralegri ræðu til nefndarinnar og formanns hennar sem hér var staddur og þeirra nefndarmanna sem voru viðstaddir um að skoða þetta mál betur. Í því hefur ekkert gerst og ég fer að skilja betur af hverju miðað við þá umræðu sem fór fram áðan. Nefndarmenn hafa kannski haft annað að gera en íhuga þessa hlið málsins. Það er auðvitað þess vegna sem ég flyt sjálfur breytingartillögu án þess að hafa komið við sögu málsins efnislega með öðrum hætti og vonaðist satt að segja til að ekki yrði þörf á því heldur mundi nefndin bjarga þessu máli sjálf. Ástæðan er sú að hvorki upphaflega nafnið í frumvarpinu, embætti landlæknis og lýðheilsu, né það sem við tók, Landlæknir – lýðheilsa, stenst þær kröfur sem mér finnst að menn eigi að gera um nöfn á opinberum stofnunum á Íslandi. Ég tel því rétt að gefa þinginu kost á að velja á milli tveggja nafna sem eru annars vegar Landlæknir – lýðheilsa og hins vegar embætti landlæknis.

Rökin fyrir því nafni sem nefndin valdi, Landlækni – lýðheilsu, eru að þar kemur fyrir orðið lýðheilsa sem er ágætt orð, tiltölulega ungt í málinu, ætli það sé ekki eins eða tveggja áratuga gamalt. Það væri auðvitað heppilegt ef hægt væri að koma fyrir í nafni stofnana öllu því sem þær fást við og standa fyrir. En það er ekki hægt miðað við þá tísku okkar tíma að hafa nöfnin tiltölulega stutt og þá hefð sem ríkir um nöfn á opinberum stofnunum á Íslandi. Við höfum þar á móti ýmis ágæt dæmi um að sameinaðar stofnanir fái nafn sem eigi sér sögulega hefð og lýsi inntaki þess sem gert er.

Menn sem kannast við Veðurstofu Íslands gætu haldið að hún sé hin gamla Veðurstofa ein og sér en svo er ekki því að hún var sameinuð Vatnamælingum Orkustofnunar fyrir nokkrum árum og voru þá uppi miklar bollaleggingar um hvað sú stofnun ætti að heita. Niðurstaðan varð sú að nafn annarrar stofnunarinnar var tekið og sú óánægja sem búist var við að það leiddi af sér hjá starfsmönnum hinnar hygg ég að hafi verið mjög skammæ.

Það sama má segja um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar voru sameinaðar fimm stofnanir sem fengust við íslensk fræði. Það voru Orðabók háskólans, Stofnun Sigurðar Nordals, Íslensk málstöð og Örnefnastofnun Íslands og svo Stofnun Árna Magnússonar. Fyrsti kosturinn við þeim vanda var að leggja til að stofnunin héti Stofnun íslenskra fræða sem mönnum þótti ekki mjög gott. Eftir nokkrar bollaleggingar var ákveðið að láta stofnunina heita Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það var alveg eins búist við því að starfsmenn hinna stofnananna yrðu óánægðir með þetta og kannski urðu þeir það framan af en ég held að sú óánægja sem kann að vera uppi meðal starfsmanna hinnar nýju stofnunar stafi ekki af nafni hennar, sem hefur alþjóðlegan hljóm og minnir viðkunnanlega á hinn mikla frumherja í íslenskum fræðum sem Árni Magnússon var, heldur miklu frekar af því að illa hefur gengið að koma þessari stofnun í eitt lag, m.a. vegna þess að framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu og fjárveitingavaldinu hefur mistekist að standa við það fyrirheit sem þessari nýju stofnun, starfsmönnum hennar og áhugamönnum um það sem hún stundar var gefið í upphafi um nýtt og sameiginlegt húsnæði.

Ég held að þetta dæmi kenni okkur ágætlega að það er ekki nafnið sem skiptir máli heldur hvernig að málum er staðið. Það getur komið upp mikil óánægja með það og hún getur bitnað á nafni eða vali á yfirmanni eða hverju öðru en það er þá yfirleitt birtingarmynd óánægju og ósamkomulags um aðra hluti.

Ég tel í þessu dæmi að embætti landlæknis sé viðeigandi en hef ekki leitað lengi að öðru nafni. Landlæknir er elsti embættismaður þjóðarinnar. Þetta er sennilega elsta opinbera sýsla sem enn er til á landinu. Landlæknisembættið var stofnað árið 1760. Landlæknir hét þá „landphysicus“ að þeirrar tíðar hætti. Það eru 250 ár síðan og kannski má segja að stofnun landlæknisembættis og aðrar framfarir sem urðu í landinu á 18. öld og okkur tókst nokkurn veginn að gleyma í sjálfstæðisbaráttunni þegar við vorum að fást við aðra hluti en höfum betri sýn yfir núna hafi kannski táknað — ég segi ekki upphaf nútímans en a.m.k. lok miðalda. Ég held að við skuldum þeirrar tíðar mönnum og samhenginu í íslenskri sögu það að umgangast heiti og tákn um þessa hluti af mikilli virðingu.

Nútímaorðið lýðheilsa kemur ekki fyrir í nafninu, það er alveg rétt. Á hinn bóginn var hinum fyrsta landphysicusi sem var Bjarni Pálsson, sá sem ferðaðist með Eggert Ólafssyni og settist að þremur árum síðar í hinu nýreista, glæsilega, danskættaða húsi á Nesi við Seltjörn, einmitt ætlað að efla lýðheilsu á Íslandi þótt það orð væri þá ekki til á íslensku og sennilega ekki í dönsku heldur. Friðrik V. sem skipaði Bjarna hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir að það hugtak þyrfti á sérstöku orði að halda, en það var auðvitað grunnurinn og kjarninn í störfum Bjarna Pálssonar landlæknis og þeirra landlækna sem síðar komu og er mikil fylking prýðilegra manna. Það á því ekki illa við að fela þetta hugtak í heiti embættisins.

Meira hef ég í raun og veru ekki um þetta mál að segja, þingheimur ákveður hvað hann vill, nema kannski það að sá siður að kalla fyrirbæri tveimur nöfnum með þverstriki eða bandstriki á milli er auðvitað til, það er ákveðin hefð fyrir því og ég rakti það í 2. umr. Það var einkum í viðskiptalífi fyrri tíma, það er ekki tíska sem tíðkast lengur í viðskiptum. Dæmin eru Sjóvá – Almennar þar sem eignarfallið ætti að vera til Sjóvár – Almennra og ferðafyrirtæki sem eitt sinn var til og hét Samvinnuferðir – Landsýn og varð til úr tveimur fyrirtækjum, eignarfallið væri þá til Samvinnuferða – Landsýnar sem mönnum gekk illa með. Þetta er sem sagt ekki tíðkað mikið lengur í viðskiptalífinu. Önnur dæmi eru úr íþróttum. Við þekkjum lið sem hafa verið slegin saman úr tveimur félögum. Ég fór með nöfn nokkurra þeirra. KR – Grótta var einu sinni til í handboltanum, Leiftur – Dalvík keppti í 3. deild og gekk ekki mjög vel og ekki heldur KR – Gróttu. Nú leika reyndar konur á Akureyri handbolta undir nafninu Þór – KA. Ég held að þeim gangi betur. En þetta sýnir að ekki er um heilsteypt lið að ræða. Má þó minna á að í karlaboltanum á Akureyri — og horfi ég nú framan í hv. þingmann þess kjördæmis sem við á, Jónínu Rós Guðmundsdóttur — gengur betur. Liðið heitir Akureyri handknattleiksfélag og er kallað Akureyri en til þess er leikurinn gerður og gengur mun betur enda nafnið miklu þjálla.

Um þetta gæti ég haft langt mál og hafði reyndar nokkuð lengra en var við hæfi í 2. umr. Minningarnar spretta fram og gaman er að rifja upp íþróttaleiki og gengi liða. Kjarninn er einfaldlega sá að þessi lausn hefur ekki reynst vel og er ekki ástæða til að endurtaka hana í nöfnum opinberra stofnana enda hafa ekki verið nefndar fyrirmyndir að þessu heiti í mín eyru þótt eftir hafi verið leitað. Ég hvet menn til að gera upp hug sinn og hugsa til starfsmanna sem þurfa að vinna í þessari vinnustöð en ekki síður til almennings, sem þarf að skipta við stöðina og lifa með henni, og hugsa einnig til íslenskrar sögu og þjóðlegrar reisnar.