139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, ef nafnið getur lýst inntaki þess sem nafnið ber þá er það gott. Stundum gera nöfn það, stundum ekki. Nafnið Mörður lýsir t.d. á afar takmarkaðan hátt inntaki eða eðli þess hlots sem hér stendur í ræðustól. Knattspyrnufélag Reykjavíkur lýsir hins vegar ágætlega inntaki og eðli nafnbera síns sem þó stundar margt annað en knattspyrnu, þó að knattspyrnan sé bæði aðal þess félags og knattspyrnufélagið aðal íslenskrar knattspyrnu. Þannig má rekja sig úr einu hloti í annað.

Það má líka spyrja: Sinnir Veðurstofa Íslands verr vatnamælingum, og því hlutverki sem hún tókst á hendur við sameininguna, sem Veðurstofa Íslands en undir einhverju öðru nafni? Stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sig verr í orðfræði sem stunduð var á stofnun sem hét Orðabók Háskólans en ef hún héti einhverju öðru nafni? Þar er dæmi um að ómögulegt var að koma fyrir þeim lýsingum sem lágu í nafni stofnananna fimm sem þar voru fyrir. Ég held, svo ég endurtaki það, að skapferli og ánægja starfsmanna fari fyrst og fremst eftir því hversu vel er staðið að sameiningunni og hvernig vinnustaðurinn virkar og hvaða tökum menn ná á viðfangsefnum sínum — ef það er í lagi þá held ég að menn uni þeim mun betur við nafnið sem það er eldra og hefur meiri hefð.