139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:19]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan snýst um ýmislegt og við höfum verið að tala dálítið um íþróttafélög og annað slíkt. Sú íþróttagrein sem stendur mér næst er hestamennska og nú velti ég því fyrir mér hvort hestanöfn almennt séu gegnsæ eða ekki, ég veit það ekki. Ég held að það sé ekki það sem málið snýst um í raun og veru.

Í því tilviki sem hér um ræðir erum við að afleggja ein lög, lög um Lýðheilsustofnun, og breyta lögum um landlækni. Fyrir einhverjum kann það að geta litið þannig út að verið sé að leggja eina stofnun niður og útvíkka aðra. Þess vegna held ég að þetta með nafnið skipti máli og ekki bara það heldur það að við vitum að þessi stofnun á líka að gegna lýðheilsuhlutverki sem í nútímasamfélagi skiptir verulega miklu máli. Forvarnir, heilsuefling og lýðheilsa skipta ekki síður máli en þau hlutverk sem hið gamla landlæknisembætti hefur yfir að ráða.