139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í rauninni sýnir þessi umræða að við erum að byrja á öfugum enda. Það er svo sem eins og mig grunaði að þegar við færum að ræða nafnið kæmu menn í löngum röðum í andsvör og umræðu en þegar verið væri að ræða efnisatriði málsins, varðandi faglega þáttinn, hvað þessi stofnun á að gera, hvernig við ættum að ná markmiðunum, yrði minna um umræðuna — ég tala ekki um þegar ræða þarf það hvernig menn ætla að ná fjármunum til að sinna því sem við erum öll sammála um að þarf að gera.

Hins vegar segir það sig sjálft að þessi röksemdafærsla gekk ekki alveg upp hjá hv. þingmanni. Ef pólitískur vilji væri fyrir því þá gæti stofnunin alveg heitið embætti landlæknis án þess að forstjórinn þyrfti endilega að vera læknir. En það er alveg útilokað að meðan það er bundið í lög, sem hefur ekkert með nafnið að gera, að það sé læknir, þá er það auðvitað svo. Það hefði verið æskilegra að við hefðum farið betur yfir þessa þætti. (Forseti hringir.) Það er mjög skiljanlegt að menn hafi sterkar skoðanir á nöfnum en mér finnst einhvern veginn (Forseti hringir.) að innihaldið sé það sem (Forseti hringir.) skiptir mestu máli. Ég held að flestir séu sammála um það ef þeir hugsa það.