139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir málinu. Hv. þingmaður kom m.a. inn á það að hér er um býsna gamalt og rótgróið embætti að ræða, embætti landlæknis, og ég verð að segja að ég hef sjálfur ekki litið svo á að nafnið á stofnuninni mundi í eðli sínu gjaldfella þetta gamla embætti, landlækni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann óttist að með þessu nýja nafni stofnunarinnar verði vegur embættis landlæknis sem slíks minni, að embættið verði á einhvern hátt gjaldfellt. Eins og ég kom inn á áðan verður titillinn áfram til, það verður áfram landlæknir sem gegnir forstöðu þessarar stofnunar.

Síðan má nefna líka að líkt og hv. þingmaður kom inn á hefur það líklega verið meginhlutverk landlæknis að sinna lýðheilsu og raunar einnig menntun læknanema í árdaga embættisins, þegar það var sett á stofn árið 1760. Núna er verið að slá þarna saman tveimur stofnunum þar sem önnur hefur fyrst og fremst haft þetta hlutverk, þ.e. lýðheilsuhlutverkið, og þá velti ég hreinlega fyrir mér hvort ekki sé tímabært að loksins, eftir 251 árs sögu, sé þess getið í nafni stofnunarinnar.