139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eftir þennan fjórðung úr þúsöld sem landlæknir hefur verið til á Íslandi hefur það embættisheiti öðlast þetta inntak og þessa merkingu hvað sem síðustu u.þ.b. tíu árum líður. Ég vil svo segja já, ég held að umbúnaðurinn, hvort sem hann er mállegur, formlegur eða felst í húsnæði eða öðrum slíkum hlutum, hafi ákveðið inntak. Það er bara þannig og ég er hræddur um að ef við göngum svona frá hlutunum sem mér finnst vera, og auðvitað á ekki að deila um smekk en ég hef líka fært rök fyrir máli mínu, sé hætta á því að við gjaldfellum að einhverju leyti þetta gamla embætti og umgöngumst það af ónógri virðingu sem ég held að gleðji ekki starfsmenn þess til lengdar eða þá sem hafa við það samskipti.