139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr um hvað gerist ef fólki er sagt upp. Ég hef miklar áhyggjur af því að það fólk sem er sagt upp í dag gangi ekki hvar sem er í vinnu, þó að ég þekki reyndar ekki mjög vel til hvaða menntun fólk hjá þessari stofnun hefur og hvaða atvinnumöguleikar eru í boði. En miðað við það sem er að gerast og við sáum mjög sláandi tölur um það í svari hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum að í þeim 540 stöðugildum sem hefur fækkað hjá ríkinu voru 470 konur sem flestar væntanlega unnu hjá heilbrigðisstofnunum. Ég hræðist mjög að þetta ágæta fólk geti misst vinnuna og geti ekki fengið vinnu annars staðar.

Hins vegar er það dálítið merkilegt að gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að öllu starfsfólki sem nú er starfandi við þessar góðu stofnanir verði áfram tryggð vinna. Vandamálin munu klárlega verða í byrjun næsta árs þegar farið verður að horfa á árið 2012. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þá þurfi að koma til uppsagna. Væntanlega þarf forstöðumaður þessarar stofnunar að fara mjög vandlega yfir það fljótlega því að eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel tekur ákveðinn tíma að láta uppsagnir virka. Fólk er kannski með uppsagnarfresti svo mánuðum skiptir.

Hv. þingmaður spyr líka um hvort hægt sé að leigja ónýtt húsnæði. (Gripið fram í.) Ónýtt, já. (Gripið fram í: Er það ónýtt?) Já, já, það er ekki nýtt, það er ekki verið að nýta það. Ég tel svo ekki vera vegna þess að við þekkjum öll húsnæðismarkaðinn, það er nóg af húsnæði hér. Það kemur líka alveg skýrt fram í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem þeir benda klárlega á að það þurfi 2% hagræðingu (Forseti hringir.) og meira til viðbótar takist ekki að endurleigja húsnæðið á Seltjarnarnesi og verði það endurleigt verður það væntanlega á mun lægra verði. Varnaðarorðin eru hér í umsögn ráðuneytisins.