139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og ég taldi mig hafa skilið hv. þingmann að menn eru að fara út í einhverja sameiningu sem í rauninni mun ekki spara neitt. Auðvitað geta menn sleppt því að ráða fólk í vinnu þegar einhver hættir vegna aldurs eða hreyfinga, það þýðir að þá verður ekki ráðið fólk í staðinn og inn á vinnumarkaðinn bætist fólk stöðugt alla daga þannig að þá myndast atvinnuleysi annars staðar. Á endanum stöndum við uppi með það — niðurskurður á kostnaði ríkisins þýðir alltaf minni launakostnað, af því að 70% hans eru laun, sem þýðir það að færri starfa hjá ríkinu og það fólk sem starfar ekki hjá ríkinu fær ekki vinnu annars staðar — á endanum stöndum við alltaf uppi með meira atvinnuleysi en ella sem afleiðingu af þessum sparnaði. Ef það væri rífandi vinna alls staðar horfði málið allt öðruvísi við en með núverandi hæstv. ríkisstjórn er ekki því að heilsa.