139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvað mér finnist um húsaleigusamninga sem voru gerðir til 25 ára fyrir sjö árum síðan með hárri leigu, a.m.k. miðað við það sem er núna, þá held ég að það hljóti að vera ákveðin mistök sem menn verði að læra af. Hins vegar réttlætir það ekki að við getum farið í þetta. Við erum með fullt af öðrum sambærilegum samningum víða, húsnæðissamninga, og meira að segja samninga sem eru tengdir við erlendan gjaldeyri, þannig að hluti af leigunni er tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla, væntanlega eins og í þessu tilfelli sem ég tel að sé en þori ekki að fullyrða um.

Það kemur líka fram hjá hv. þingmanni að sameinuð stofnun sé betur undir það búin að takast á við hagræðingarkröfu. Ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um það vegna þess að eftir situr þetta óhagræði út af húsnæðismálunum sem stofnunin þarf að leysa úr. Ég öfunda ekki forstöðumenn stofnunarinnar að þurfa að gera það, hugsanlega með þeim hætti að þurfa að segja upp starfsfólki.