139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður segir að skilja megi orð mín á þann veg að ég ali hugsanlega á ótta starfsmanna vegna uppsagna. Það er ekki meining mín að gera það, alls ekki. Ég er hins vegar að reyna að draga hið gagnstæða fram í dagsljósið með því að taka þátt í umræðunni við 1., 2. og 3. umr. og vara einmitt hv. þingmenn við. Taki þeir svona ákvarðanir getur það kallað á uppsagnir starfsfólks. Það gefur augaleið að peningur til að mæta aukaútgjöldum vegna húsnæðis fellur ekki af himnum ofan. Þetta gætu orðið afleiðingarnar af því að fara í þessa vegferð og það er það sem ég vara við í umfjöllun minni. Ég vil alls ekki vekja ótta starfsmanna heldur einungis benda á það sem mér finnst hið augljósa. Því miður erum við alls staðar að segja upp starfsfólki hjá hinu opinbera. Hvort heldur um er að ræða löggæslumenn, heilbrigðisstarfsmenn eða aðra er þetta hinn blákaldi veruleiki.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að hægt hefði verið að hafa tvær stofnanir áfram hvora í sínu húsinu þótt það væri sama stofnunin. Ég tel það ekkert útilokað og hef ekki þá þekkingu sem þarf til að geta kveðið upp úr um það. Ég teldi að a.m.k. hefði verið hægt að skoða það betur. Ég fullyrði ekki að að það hafi verið hægt en minni á að Landspítalinn er, ef ég man rétt, með starfsemi á 17 starfsstöðvum. Við megum ekki gleyma því (Forseti hringir.) að stofnanirnar snúast ekki um húsnæðið, þær snúast um fólkið sem vinnur hjá þessum stofnunum.