139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvort vondir samningar eigi að vera fyrirstaða gegn því að sameina stofnanir. Vondir samningar eru bara hinn blákaldi veruleiki sem við horfum framan í og það er alveg sama hvað okkur finnst um það, við komumst ekki frá þeim. Hv. þm. Þuríður Backman, sem er formaður hv. heilbrigðisnefndar, upplýsti mig við 2. umr. um að við kæmumst ekki frá því vandamáli. Það er það sem við þurfum að horfast í augu við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, það er hinn blákaldi veruleiki. Þó að við séum ósátt við samninginn og viljum ekki láta hann stoppa sameininguna verðum við eigi að síður að horfa raunsætt á það.

Hv. þingmaður sagði líka áðan að það væri Landspítalanum svo sem ekki til framdráttar að vera með svo margar starfsstöðvar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, við erum alveg sammála um það, og ég minni á að þegar verið er að tala um að byggja nýjan landspítala er það einmitt hagræðingin sem á að greiða niður kostnaðinn. Það er akkúrat öfugt við það sem verið er að gera hér. Nefnd sem Gunnar Svavarsson stýrir leggur faglegt mat á verkið og forstöðumenn og forstjórar Landspítalans leggja fram nákvæma greiningu á því hvernig á að spara og hagræða með því að færa Landspítalann á einn stað. Það er alveg tilgreint og þau gögn liggja fyrir. Það eru akkúrat þau gögn sem mér finnst að þurfi að liggja fyrir áður en tekin er efnisleg ákvörðun um að fara í þessa sameiningu. Ég hef verið mjög gagnrýninn á það í þessari umræðu að svo hafi ekki verið.

Hv. þingmaður verður líka að átta sig á því að þegar farið verður að skera niður í haust, sem væntanlega verður gert, er ekkert svigrúm hjá forstöðumönnum þessara stofnana frekar en annarra. Það eru uppsagnir eftir, það er búið að skera allt fitulag alls staðar úr öllum stofnunum, það þekkjum við í umræðum (Forseti hringir.) í þinginu. Það þýðir bara uppsagnir, því miður.