139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Þegar menn hlusta á umræður á Alþingi þessa dagana er eins og þær séu endalaust röfl um gerðir ríkisstjórnarinnar. Hún vinnur sitt starf og stjórnarandstaðan talar af gömlum vana. Það hljómar þannig.

Hér ræðum við frekar lítið mál, alla vega miðað við það sem við höfum verið að ræða undanfarin ár, og samt er það ákveðið sýnishorn af því sem menn eru að gera. Menn fara út í sameiningu, það er ekki neitt lagt til grundvallar, ekkert mat eða neitt slíkt, menn vaða bara áfram eins og í öllu öðru og bæta stöðugt við skuldbindingar ríkissjóðs, auka stöðugt atvinnuleysið, niðurskurðinn á heilbrigðisþjónustunni o.s.frv. og hv. stjórnarandstaða stendur hér og mótmælir, salurinn er tómur og menn taka eiginlega ekki mark á neinu.

Nú býst hv. þingmaður við því að menn læri af þessu. Ég vona svo sannarlega að menn geri það. En við erum nýbúin að samþykkja nánast blindandi og umræðulaust 33 milljarða, þá er ég að tala um 33 þús. milljónir, ekki einn eða tvo tugi heldur 33 þús. milljónir, til Íbúðalánasjóðs. Það var ekki mikið rætt hvort þetta væri skynsamlegt eða óskynsamlegt. Þetta er orðið að lögum og fer meira að segja mest til fólks sem ekki varð fyrir hækkun á gengistryggðum eða verðtryggðum lánum heldur fólks í allt öðrum vanda. Býst hv. þingmaður enn þá við því að hlustað sé á hann? (Forseti hringir.)