139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að svona einu sinni í viku falli stjórnin en hangi samt áfram saman. Vinsældir hennar hjá þjóðinni dala hratt en það virðist ekki hafa nein áhrif heldur.

Hér koma fram skynsamlegar mótbárur við ákveðnum hlutum og það gerist ekki neitt, málið er bara keyrt í gegn. Það er verið keyra fjöldann allan af málum áfram. Maður getur haldið endalausar ræður um hluti sem eru keyrðir í gegn án mikillar umræðu, án mikillar yfirlegu, án þess að það sé nokkur hugsun í þeim og það gerist ekki neitt. Þó að ég vilji gjarnan deila bjartsýni hv. þingmanns og ég sé bjartsýnn að eðlisfari, og það þrátt fyrir ríkisstjórnina, þá er staðan þannig að við getum ekki endalaust horft upp á þessi hræðilegu vinnubrögð.

Eftir örfáa daga greiðir þjóðin atkvæði um Icesave, já eða nei. Þar er sama klúðrið, það er búið að vera endalaust. Menn koma alltaf með betri og betri samninga, það munar bara hundruðum milljarða, og samt er enn þá gífurleg áhætta í þessum samningi. Ég vil koma því að að ég mun segja nei í þeirri kosningu.