139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera úrslitatilraun til að koma — ég veit ekki hvort ég á að segja vitinu, það er kannski ekki tilhlýðilegt — þeim staðreyndum að sem ég tel mikilvægt að koma á framfæri til hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Þetta er síðasta ræðan sem ég get haldið í þessu máli. Hún mun því miður einungis standa yfir í fimm mínútur. [Hlátur í þingsal.]

Ég hræðist það þegar við förum í fjárlagagerðina í haust því að þá þurfum við að skera niður. Það er bara staðreynd og ekki mjög margir hv. þingmenn hafa, að því er mér finnst, miklar áhyggjur af því. Mig langar að minna á það sem gerðist síðastliðið haust; mér er það nefnilega mjög minnisstætt af því að ég sit í hv. fjárlaganefnd og mæti þar á alla fundi. Við tókum til að mynda á móti forstöðumönnum tveggja heilbrigðisstofnana sem fengu kaldar kveðjur frá stjórnarmeirihlutanum við fyrstu fjárlagagerð þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og náðist sem betur fer að snúa það dálítið niður. Upplýsingarnar komu fram í haust. Hver voru viðbrögð þessara forstöðumanna? Þetta eru staðreyndir og við erum í núinu. Á heilbrigðisstofnununum vinna konur með allt niður í 150 þús. kr. á mánuði í laun. Hvað eru þessir forstöðumenn að gera? Þeir sögðu á fundi fjárlaganefndar að þeir væru búnir að skera niður allt sem heitir yfirvinna og allar sporslur og aukagreiðslur sem svo eru kallaðar stundum. Þeir eru meira að segja komnir inn á það grátt svæði að þessar konur, sem hafa ekki litla þýðingu fyrir starfsemi stofnananna, voru hættar að fá greitt fyrir þá yfirtíð sem þær áttu sannarlega samkvæmt kjarasamningum. Forstöðumennirnir voru komnir inn á það grátt svæði að starfsfólk sem var með allt niður í 150 þús. kr. á mánuði í laun fékk ekki greitt þó að það ætti inni hluta af kaffitímanum og hluta af matartímanum. Hvers vegna gerðu þessar konur þetta? Það er vegna þess að það var búið að skera svo mikið niður og fækka svo mikið starfsfólki að þær unnu aukavinnu fyrir stofnunina til að leggja sitt af mörkum. Þarna erum við að tala um nokkra þúsundkalla, en í þessu máli eru þeir hv. þingmenn sem samþykkja þetta mál tilbúnir til að henda 36 millj. kr. bara sisvona. Ég vara við því þegar við förum í fjárlagagerðina í haust að þá munu bíða þau verkefni að skera niður og þá mun þessi tiltekna stofnun ekki komast hjá því frekar en aðrar. Það eina sem forstöðumennirnir geta hugsanlega gert er að segja upp fólki. Það er það sem ég vil draga mjög skýrt fram. Ég tel valið vera á milli þess að bruðla með 36 millj. kr. í húsnæðiskostnað og faglegs starfs stofnunarinnar.

Það fólk sem missir vinnuna á svo sannarlega samúð mína alla. Þegar manni finnst bruðlað í óþarfa með þeim afleiðingum að segja þarf upp starfsfólki getur maður ekki annað en komið því mjög skýrt á framfæri. Ég mun rifja það upp í haust þegar menn ræða fjárlögin og niðurskurðinn og þegar forstöðumenn stofnananna mæta til fjárlaganefndar og fara yfir stöðuna sem þeir eru í. Þá mun blasa við að við erum að bruðla með peninga. Eins og ég kom að í fyrri ræðu, að tveir prófessorar og einn dósent sem kenna hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hefðu bent á það síðast í morgun að ekki hefði verið ráðið í fjórar stöður og tvær yrði hugsanlega ekki ráðið í, er það um það bil sá kostnaður sem verið er að bruðla með. Hverjar eru afleiðingarnar sem þessar ágætu konur bentu á? Þær eru nefnilega þær að hjúkrunarnámið gjaldfellur af því að það verður að velja og hafna hvað þarf að taka út úr náminu og það getur haft í för með sér að öryggi sjúklinga verði ógnað. Það voru skýr skilaboð sem við heyrðum síðast í morgun. En því miður virðist vera nákvæmlega sama hvaða skilaboð koma, það er aldrei hlustað.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja þetta: Ég óska starfsfólki nýrrar stofnunar, ef hún verður að veruleika, eða starfsfólki þessara stofnana velfarnaðar í vandasömum störfum sínum í framtíðinni.