139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina en ég verð að vekja athygli á því að í frumvarpinu er skýrt tekið fram að ekki er ríkisábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins og kveðið er upp úr með það. Það hafa verið deildar meiningar um það hvort í reynd væri ríkisábyrgð í núgildandi kerfi eða ekki en þetta er afar skýrt í frumvarpinu. Þar liggur enginn vafi eins og þingmaðurinn getur kynnt sér með því að fara í gegnum frumvarpið sjálft.

Hann spyr um það hvort vit sé í því að tengjast innstæðutryggingakerfum annars staðar í álfunni og ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að menn fylgist mjög grannt með þeirri þróun sem þar er að verða. Það eru einhver ár í að ákvörðun verði tekin um það hvort stofnaður verði sameiginlegur innstæðutryggingarsjóður Evrópu, það hillir undir niðurstöðu þess máls kringum árið 2014, ef mig misminnir ekki. Að sjálfsögðu er það mikilvægt, sérstaklega fyrir lítil ríki eins og Ísland, að verða samferða öðrum ríkjum ef slíkur sjóður kemst á laggirnar. Það er staðreynd að í álfunni er mikill þrýstingur á það frá minni ríkjum að slíkur sjóður komi upp. Hann mundi sannarlega þjóna hagsmunum okkar betur en það að standa ein með slíkan sjóð í okkar litla hagkerfi.