139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Pétur H. Blöndal deilum þeirri skoðun að það fyrirkomulag sem við viljum komast í varðandi innstæðutryggingarnar sé að það sé fest í gadda að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðunum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að með því að kveða upp úr með það í frumvarpinu að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins sé opnuð leið til að fara út úr því kerfi að í reynd sé ríkisábyrgð á innstæðum. Við áttum okkur á því að ef frumvarpsins nyti ekki við þá stöndum við eftir með yfirlýsingar stjórnvalda á fyrri missirum um að ríkisábyrgð sé á innstæðum í fjármálastofnunum og við þurfum að komast út úr því fyrirkomulagi og inn í það kerfi að sjóðurinn sjálfur standi sem mest undir skuldbindingum sínum án þess að hagsmunir almennings séu þar undir.