139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er með tvær spurningar til hv. þingmanns. Hann nefndi að þrír hæstv. ráðherrar núverandi ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, hefðu allir lagt til, þessir þáverandi hv. þingmenn, að þessar tryggingar yrðu ótakmarkaðar, voru sem sagt vinir fjármagnsins, vildu sem sagt hafa fjármagnið tryggt að fullu.

Hefur hv. þingmaður spurst fyrir eða reiknað út hvað Icesave-skuldbindingin væri mikil ef þetta hefði verið samþykkt hjá þessum hæstv. ráðherrum?

Þá er það annað sem komið hefur verið inn á í umræðunni sem mér finnst vera ákveðin meinloka hjá meiri hlutanum og kom fram í ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar áðan og kemur reyndar líka fram í nefndaráliti meiri hlutans, það er það að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í október 2008 tryggi nánast allar innstæður í íslenskum bönkum. Nú veit ég að hv. þingmaður nefndi þetta líka en það er greinilegt að þeir sem þetta skrifa þekkja ekki stjórnarskrá Íslands því að hún bannar allar greiðslur úr ríkissjóði, skv. 41. gr., „nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Ekki er til nein heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum hvorki fyrir Icesave-skuldbindingunni né einhverjum innlánstryggingum. Þetta er á ábyrgð viðkomandi ráðherra, bara sem einstaklinga, að borga þetta ef þetta fellur til.

Og það er spurning hvað hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á miklar eignir til þess að borga 1.500 milljarða, eða hæstv. fjármálaráðherra. Samkvæmt stjórnarskránni, og það er nú kannski það gullna við stjórnarskrá okkar sem er í gildi, það er það gullna, að hún tryggir okkur einmitt gegn svona skuldbindingum sem menn geta verið að gusa út, bara með orðum, hingað og þangað.