139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég saknaði þess í svari hv. þingmanns að hann svaraði þeirri spurningu hvernig stjórnarskráin verndar okkur gegn svona yfirlýsingum eins og þeirri að lýsa því yfir að allar innstæður séu með ríkisábyrgð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra einmitt að þessu fyrir nokkru og hann varð að viðurkenna að í reynd væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Og það er ekki ríkisábyrgð vegna þess að stjórnarskráin hreinlega bannar það. Það yrði þá að standa í fjárlögum eða fjáraukalögum, öðruvísi öðlast það ekki ríkisábyrgð. Og þetta virðist vera meinloka hjá hv. meiri hluta viðskiptanefndar, hann virðist ganga út frá því að það sé ríkisábyrgð á innstæðum. Það er meinloka og þá telur hann sig þurfa að gera eitthvað til að komast undan þeirri ríkisábyrgð. Þetta er alveg skelfileg forsenda þess að keyra málið áfram og ég vona að hv. þingmenn viðskiptanefndar, í meiri hlutanum, sem hlusta á þetta sjái villur síns vegar, að þeir hafi gengið út frá rangri forsendu, breyti forsendunni og komi með innlánstryggingakerfi sem er í samræmi við gömlu tilskipanir Evrópusambandsins sem EES er búið að taka upp og við höfum sett inn í innlánstryggingakerfið nú þegar. Ég ætla að vona að það verði en það er ekki mikið hlustað hérna þessa dagana. Ég vil líka bæta þeirri spurningu við til hv. þingmanns: Hver væri staða íslensku þjóðarinnar, launþega og annarra, ef þessi tillaga hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hefði verið samþykkt á sínum tíma?