139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir mjög yfirgripsmikla ræðu. Hún kom víða við en það var eitt atriði sem ég hjó eftir. Ég nefndi það reyndar um haustið 2008 að það þyrfti að stofna einn sjóð um alla Evrópu og hann ætti að hafa heimild til þess að fylgjast með vexti og ávöxtun í einstökum innstæðum þannig að hann gæti stöðvað of mikinn vöxt. Svo þyrftu innstæður að hafa forgang í þrotabúum. Þetta yrði sem sagt sjóður um allt Evrópusambandið eða jafnvel heiminn eins og hv. þingmaður nefndi.

Spurning mín er sú hvort við gætum byrjað á Norðurlöndunum. Ég nefndi það við forseta Norðurlandaráðs, hv. þm. Helga Hjörvar, hvort það hefði verið skoðað að Ísland myndaði innlánstryggingarkerfi með Norðurlöndunum. Það mundi strax dreifa áhættu okkar. Svo fannst mér líka mjög athyglisvert hjá hv. þingmanni það sem hann nefndi um að tryggja bara krónur, það hugnast mér betur. Ríkið getur endalaust gefið út skuldabréf í krónum og selt þau þeim sem eiga kröfu, ríkið gæti bundið féð á móti þannig að það mundi ekki valda verðbólgu.

Ég spyr hv. þingmann: Hyggst hann flytja breytingartillögu við frumvarpið um að eingöngu séu tryggðir reikningar í krónum, þ.e. að tryggingin sé fólgin í krónum?

Svo velti ég fyrir mér þeim rökum að svona innlánstryggingarsjóður mundi ná um allan heiminn. Það er í mínum huga mjög svipað því að menn hafi stofnað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að hjálpa einstökum löndum, svona sjóður gæti eiginlega (Forseti hringir.) starfað innan hans.