139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég velti fyrir mér þegar ég vann þetta nefndarálit var hvort ástæða væri til að leggja fram breytingartillögu sem takmarkaði trygginguna við innstæðu í íslenskum krónum og einnig hvernig ætti að útfæra þetta til að tryggja að við gætum einhvern veginn takmarkað þessa gengisáhættu. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal hefur einmitt mikið velt fyrir sér gengisáhættunni sem er t.d. fólgin í Icesave-samningunum. Ég veit líka að þeir nefndarmenn sem sátu í rannsóknarnefnd Alþingis höfðu mjög miklar áhyggjur af þeirri gengisáhættu sem væri fólgin í þessu fyrirkomulagi tilskipunar frá Evrópusambandinu. Þegar maður horfir síðan á það að af þessum fjórum Norðurlandaþjóðum sem eru frændþjóðir okkar og nágrannar eru þrjár þeirra enn þá með sína eigin mynt, bara Finnar hafa tekið upp evruna. Það er eitt af því sem maður teldi kannski að þau ættu að velta fyrir sér, hvernig þau geta tryggt sig gagnvart gengisáhættu.

Hins vegar veit ég líka að þar eru menn mjög brenndir af þeirri bankakreppu sem þeir fóru í gegnum fyrir 20–25 árum. Ég er ekki viss um að þeir mundu telja, eins og ég fór í gegnum í framsögu minni, mjög aðlaðandi að stofna sameiginlegan innstæðutryggingarsjóð með Íslandi. Ég tel hins vegar að þau lönd sem eru að einhverju leyti í samstarfi við Evrópusambandið og þurfa að vinna undir þessum skilyrðum ættu svo sannarlega að skoða það að vinna saman til að draga sem mest úr þeirri áhættu sem tengist myntinni.

Ég mun í seinna andsvari mínu svara spurningunni (Forseti hringir.) um fyrirkomulagið, því sem þingmaðurinn spurði um forgang og annað.