139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að viðskiptabankar geti fjármagnað sig með því að taka lán. Innlán eru náttúrlega ekkert annað en lán sem sparifjáreigendur eru að lána bankanum. Það sem þarna er hins vegar verið að tala um er að verið sé að horfa til hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi, og þá innlán og útlán til einstaklinga og fyrirtækja, en ekki rekstrar verðbréfasjóða og annarrar áhættutengdrar starfsemi sem felst þá í því að reka fjárfestingarbanka.

Ef við horfum til sögunnar í Bandaríkjunum þá var það ekkert vandamál að mínu mati að bankar eins og Goldman Sachs og Morgan Stanley voru fyrst og fremst fjárfestingarbankar en aðrir bankar sem voru í hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi voru að lána til að fólk gæti keypt sér húsnæði eða startað litlum fyrirtækjum, þannig að takmörkin liggja þar. Það sem mundi þá snerta starfsemi viðskiptabanka væri það að ef við setjum hámark á það hversu mikið þeir geta skuldsett sig, upp á það að taka lán fyrir utan þessi hefðbundnu innlán — og það var líka þekkt í Glass-Steagall löggjöfinni sem ég nefndi í ræðu minni. Ég mæli eindregið með því að hver einasti þingmaður, og ekki bara í viðskiptanefnd, horfi á myndina The Inside Job , heimildarmyndina sem fékk Óskarsverðlaunin, sem fjallar einmitt um það hvernig jafnt og þétt var dregið úr öllum hömlum, dregið úr öllum takmörkunum í starfsemi banka, hvernig þessi lög varðandi aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka voru afnumin og þar með var áhættan innan bandaríska bankakerfisins margfölduð.