139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er miður ef hv. þingmaður áttar sig ekki á þeim mun sem er á Sameinuðu þjóðunum annars vegar og hernaðarbandalaginu NATO hins vegar. Ég ætla aðeins að rifja upp að aðdragandinn að samþykkt öryggisráðsins var heiftarlegar árásir Gaddafís á óbreytta borgara og yfirlýsingar um að hann mundi engu eira. Uppreisnarmenn kölluðu eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins og Sameinuðu þjóðanna og það gerði Arababandalagið líka. Þar kom að öryggisráðið samþykkti með miklum skilyrðum loftferðabann yfir landinu í þeim tilgangi að verja almenna borgara. Þar er lögð áhersla á samstarf við Arababandalagið og að þar sé ekki tekin ákvörðun um innrás í landið, landhernað eða að steypa stjórnvöldum. Þetta eru forsendurnar fyrir því að við vinstri græn studdum ákvörðun öryggisráðsins nr. 1973. Við teljum að Sameinuðu þjóðirnar séu réttur vettvangur til að meta stöðuna þar sem átök geisa. Við treystum þeim og þeirra leiðsögn.

Við treystum hins vegar ekki hernaðarbandalaginu NATO til að framfylgja samþykktum Sameinuðu þjóðanna (Gripið fram í.) — og hvers vegna ættum við að gera það? Við erum flokkurinn sem er á móti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO. (Gripið fram í: Þetta er ekki …) Við erum flokkurinn sem er á móti hernaðarbandalögum almennt (Gripið fram í.) og ég skil ekki þá sem segjast undrandi á því að vinstri græn lýsi ekki stuðningi við það þegar hernaðarbandalaginu NATO er falin framkvæmd á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í: Þið hafið …) NATO er nefnilega ætlað og til þess stofnað að gæta hernaðarlegra, efnahagslegra og pólitískra hagsmuna stórveldanna og herveldanna sem því stýra, þar á meðal hergagnaframleiðslu landanna sem hafa séð þessum einræðisherrum í Miðausturlöndum fyrir vopnum — og gera því miður enn. (Gripið fram í.)

Ég gef sem sé lítið fyrir þá klisju, forseti, að NATO sé friðarbandalag eins og sjálfstæðismenn segja oft og ég treysti því bandalagi ekki fyrir horn. (Gripið fram í.)