139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Allir kjarasamningar eru lausir síðan um síðustu áramót og Samtök atvinnulífsins sögðu sig frá kjarasamningaviðræðum í gær. Var það fyrst og fremst vegna verkleysis ríkisstjórnarinnar. Samtök atvinnulífsins trúa því ekki að ríkisstjórnin ætli að koma að og liðka til fyrir samningaviðræðum. Það er ekki nema von þar sem mikið atvinnuleysi mælist nú og það eina sem ríkisstjórnin hefur raunverulega á dagskránni er að hækka skatta. Það vita allir að í miklu skattpíningarumhverfi er ekki tækifæri til að skapa atvinnu.

Síðast bárust af því fréttir að verið væri að máta þær hugmyndir við íslenskt samfélag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði lagt til að m.a.s. matarskatturinn yrði hækkaður úr 7% upp í 25,5%. Hvers vegna er svona kvitti komið af stað? Hvernig eigum við að geta sannað hvort þetta er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða ríkisstjórnin sjálf? Svona standa málin. Það sem varð breyting á í morgun var að ríkisstjórnin sá sitt óvænna og kom að þessum málum, hélt neyðarfund með Samtökum atvinnulífsins og ASÍ og lofaði bót og betrun. Það á að koma út yfirlýsingarplagg á morgun sem á að réttlæta hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.

Mig langar að spyrja hv. varaformann hv. félags- og tryggingamálanefndar, Ólaf Þór Gunnarsson: Trúir þingmaðurinn því að upp úr hádegi á morgun birtist eitthvert plagg frá ríkisstjórninni sem eitthvert mark er takandi á, eitthvað annað en einhver viljayfirlýsing sem við höfum fengið að sjá nóg af síðan þessi ríkisstjórn tók við? Hvers vegna ættu Samtök atvinnulífsins, ASÍ, við þingheimur og landsmenn allir að trúa því að á morgun muni eitthvað gerast í því að hér fari mál að horfa til betri vegar? Hefur varaformaður félags- og tryggingamálanefndar ekki áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er á almennum vinnumarkaði, sér í lagi í ljósi þess að einn öflugur verkalýðsforingi hefur hvatt til þess að hér verði tafarlaust farið í allsherjarverkfall svo það komist af stað (Forseti hringir.) einhver framtíðarsýn?