139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Vegna umræðunnar hér um flugbann yfir Líbíu og hvernig eigi að framfylgja því finnst mér miklu máli skipta að samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er sú samþykkt sem ríki heims hafa komið sér saman um að fara eftir í þessu máli. Hún kveður á um flugbann, og flugbanni verður ekki framfylgt nema gerðar séu loftárásir á herþotur, flugvelli og önnur hernaðarmannvirki sem tengjast hernaði í Líbíu og koma þannig í veg fyrir að herflugvélar líbískra stjórnvalda geti tekið á loft og gert loftárásir á eigin þegna. Um það snýst málið. Það er ekki fallegt, það er ekki friðsamlegt en það er það sem var samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og ég hygg að við styðjum hér að komið verði í veg fyrir að Gaddafí og menn hans brytji niður eigin þegna í eigin landi.

Sú heimild kveður ekki á um innrás, landhernað eða neitt slíkt. Það er ekki aðalatriði í mínum huga hvaða ríki eða ríkjabandalag framfylgir ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Aðalatriðið er að það þarf að framfylgja ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í.) Það hefur allt of oft gerst að ákvörðunum öryggisráðsins hefur ekki verið framfylgt, þær hafa reynst bitlausar þegar á hefur reynt og öryggisráðið hefur oft orðið bert að því að verja fólk ekki gegn árásum, fjöldamorðum, jafnvel þjóðarmorðum. Það verður því miður ekki gert, hv. þingmenn, öðruvísi en að beita hernaðarmætti til að koma í veg fyrir að herflugvélar taki á loft í Líbíu. Um það snýst þetta mál í kjarna sínum (Forseti hringir.) og ég vænti þess að við séum sammála um það.