139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. 15. desember sl. var skrifað undir merkilegt samkomulag milli atvinnulífs, fjármálafyrirtækja og ríkisvalds um skuldaúrlausn minni og meðalstórra fyrirtækja. Síðan eru liðnir þrír og hálfur mánuður. Í upphafi var gert ráð fyrir að þetta gæti náð til 5–7 þús. fyrirtækja. Ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þetta mál á mánudaginn var og þá upplýsti hæstv. ráðherra okkur um að það væru ekki 5–7 þús. fyrirtæki sem féllu inn í þetta nýja skapalón heldur bara 1.700 fyrirtæki. Þá veltir maður fyrir sér: Hver verða þá örlög hinna? Hver verða örlög þeirra 5 þús. fyrirtækja eða svo sem ekki komast inn á þá beinu braut sem svo hefur verið kölluð til að reyna að lækka skuldir fyrirtækja sem bráðnauðsynlegt er?

Við gerum okkur öll grein fyrir því mikla tjóni sem yrði ef yfir okkur helltust svona mikil gjaldþrot í atvinnulífinu, tjóni sem fólkið yrði fyrir sem vinnur hjá fyrirtækjunum og tjóni fyrir samfélagið allt.

Það sem meira er, það kom líka fram í máli hæstv. ráðherra að af þessum 1.700 fyrirtækjum væru einungis 350 búin að fá tilboð um tiltekna úrlausn á skuldavanda sínum. Ég ítreka að hér er um að ræða tilboð, hér er ekki um að ræða niðurstöðu milli fyrirtækjanna og fjármálafyrirtækjanna heldur einungis tilboð sem fyrirtækin þurfa síðan að taka afstöðu til. Þegar við skoðum málið er þetta er ekki nema um einn fimmti þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut. Þetta eru að mínu mati hrollvekjandi upplýsingar og við spyrjum okkur sjálf hvort okkur detti það nokkuð í hug að staða atvinnufyrirtækjanna sé svona miklu betri að bara 1.700 fyrirtæki þurfi að fá slíka skuldaúrlausn en ekki 5–7 þús. eins og menn töldu í upphafi.

Mér finnst þessi beina braut óðara vera að breytast í einhvers konar torleiði. Þetta er að verða hlykkjótt leið, ekki bein braut eftir fullkomnum torfærum þar sem heilu snjóskaflarnir eru í veginum og alls óvíst hvenær næsti mokstursdagur verður. (Forseti hringir.) Þetta er eins og Vestfjarðavegur 60 á vondum degi. Ég spyr hv. þm. Magnús Orra Schram hvort hann telji ekki að endurskoða þurfi þessi mál og hvort (Forseti hringir.) ekki þurfi að koma að þessum málum með miklu kröftugri hætti til að forða því að við sjáum fjöldagjaldþrot fram undan.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)