139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Við erum sammála um að hraða beri leiðréttingu á skuldum fyrirtækja og það er mjög mikilvægt í gegnum beinu brautina. Það eru hrein og klár vonbrigði að vinnan skuli ekki ganga jafnhratt fyrir sig og að var stefnt.

Svo virðist sem óvissa um lyktir gengislánadóma virðist sitja helst í aðilum banka og fyrirtækjanna, en það er mikilvægt að allir aðilar séu upplýstir um það í atvinnulífinu að betri réttur verður ekki tekinn af fyrirtækjunum hverjar sem lyktir gengislánadóma verða.

Viðskiptanefnd hefur áður fjallað um málið og í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í síðustu viku hefur verið kallað til fundar í viðskiptanefnd á mánudaginn til að fjalla ítarlega um stöðu beinu brautarinnar.

Það er mikilvægt að við stjórnmálamenn höldum uppi þrýstingi í þessu máli því að bankarnir verða að vinna sína vinnu hratt sem og verða fyrirtækin að leita lausna í málum sínum. Ég ítreka að betri réttur er þeim tryggður.

En beina brautin er bara einn af þessum þáttum sem við verðum að hafa áhyggjur af til að styrkja veg atvinnulífsins í landinu. Við þurfum að fá vaxtatöluna neðar. Það er mikilvægt fyrir okkur að ljúka kjarasamningum sem allra fyrst og þá kjarasamningum til lengri tíma. Það er mikilvægt fyrir okkur að skapa sátt um breytingar í kvótakerfinu og um það erum við hv. þingmaður sammála í sinni einföldustu mynd. Hvers konar sátt? mætti spyrja. (Gripið fram í: En Icesave?) Ég skal koma að því á eftir, hv. þingmaður, vertu rólegur. Það er mikilvægt fyrir okkur að skapa sátt um þær breytingar á kvótakerfinu sem við þurfum að ráðast í og þegar ég tala um sátt legg ég áherslu á að fyrirtækjunum verði sköpuð örugg skilyrði, að við náum að tryggja að hér sé um leigurétt að ræða og að fyrirtækin í greininni greiði fyrir það sanngjarnt gjald í ríkissjóð. Það eru lykilatriðin sem við þurfum að ná utan um og á það eigum við að fókusera í vinnunni sem er fram undan.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson minnist á Icesave. Ég skal gera honum þann greiða að minnast á að líklega er mikilvægasta hagsmunamálið fyrir atvinnulíf í landinu að Icesave-málinu ljúki á næstu vikum. (Gripið fram í.) Atvinnulífið kallar eftir því að við ljúkum þessu máli með jái og þess vegna segi ég: (Gripið fram í.) Ef við meinum það í raun og veru að við viljum auka atvinnu í landinu eigum við að hvetja (Forseti hringir.) landsmenn til að segja já 9. apríl. (Gripið fram í.) [Kliður í þingsal.]