139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[14:35]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum loks atkvæði um mál sem verið hefur í undirbúningi svo mánuðum skiptir hjá þeim stofnunum sem til stendur að sameina, svo og í hv. heilbrigðisnefnd. Ávinningur af sameiningunni verður til að byrja með fyrst og fremst faglegur, en í hinni nýju stofnun verður til mjög breið almenn þekking á heilbrigðismálum. Unnið hefur verið í ágætri sátt að sameiningu innan stofnananna tveggja þótt auðvitað séu einhverjir ósáttir eins og alltaf gerist í slíku breytingaferli. Miklar vonir eru bundnar við að þessi nýja stofnun geti tekið við nýjum verkefnum og að hér séum við aðeins að stíga eitt skref í sameiningarferli heilbrigðisstofnana með tilheyrandi faglegum og efnahagslegum ávinningi.

Ég óska nýrri stofnun sem við erum vonandi að samþykkja hér og starfsfólki hennar alls hins besta og velfarnaðar í störfum sínum.