139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[14:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Allt frá árinu 1946 má segja að staðið hafi deilur um tilurð Reykjavíkurflugvallar, hvort þar ætti að vera miðstöð innanlandsflugs eða hvort það hefði átt að vera suður á Keflavíkurflugvelli þegar Kaninn afhenti okkur Keflavíkurflugvöll. Margt hefur verið sagt og ritað öll þessi ár og mörg samkomulög gerð um hvað skuli gera o.s.frv. Eitt af þeim var samkomulag frá árinu 2005 milli þáverandi samgönguyfirvalda og borgarstjóra um að kanna kosti og galla þess að byggja samgöngumiðstöð norðan við Loftleiðahótelið. Að því hefur verið unnið allan þann tíma og miklum peningum verið eytt eða í kringum 55 millj. kr. plús ýmislegur kostnaður hjá Isavia og forverum þess.

Í stöðugleikasáttmála 2009 var fjallað um þetta og allt var gefið í til að koma þessu verki í gang. Unnið var með borgaryfirvöldum, verulega, og eins og ég sagði var samkomulag gert og unnið að hugmynd að deiliskipulagi. Af hálfu samgönguyfirvalda var fallist á allar óskir sem Reykjavíkurborg setti fram. Loforð um auglýsingu að deiliskipulagi var gefið æ ofan í æ en alltaf svikið.

Staðsetning Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni þurfti ekki að fara í deiliskipulag. Ofanjarðarbílastæði þar voru ekki þyrnir í augum borgaryfirvalda en voru það hins vegar við hugsanlega samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Það mátti ekki og verkefnið átti að fara í deiliskipulag.

Því má segja, virðulegi forseti, að með skipulegum hætti og skipulagsbreytingum, einnig aðgerðaleysi og doða á öðrum sviðum, hafi borgaryfirvöld unnið að því leynt og ljóst að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan. Flugið og flugstarfsemi er í spennitreyju allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur. Hvar miðstöð innanlandsflugs á Íslandi á að vera í framtíðinni er ekki einkamál borgarstjórnar Reykjavíkur.

Því vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra tveggja eftirfarandi spurninga um þetta:

Hver verða næstu skref eftir að búið er að slá af byggingu samgöngumiðstöðvar? Var gert eitthvert samkomulag um byggingu flugstöðvar á núverandi svæði Flugfélags Íslands og ef svo er hvað á að gera og hvenær?

Hvað varðar Reykjavíkurflugvöll sjálfan og tilurð hans og framtíð í Vatnsmýrinni vil ég segja þetta: Eins og ég hef áður sagt eru deilurnar langvinnar, menn úr öllum flokkum, innan fjölskyldna og allur pakkinn eins og hann leggur sig. Höfum þetta í huga. Rúmlega 400 þús. farþegar fóru um Reykjavíkurflugvöll á síðasta ári, fóru mest í 470 þús. Áætlað er að um 500–600 starfsmenn hafi atvinnu sína í kringum Reykjavíkurflugvöll, flestir mjög sérhæfðir, og þá tala ég ekki um afleidd störf sem eru fjölmörg. Heildarfjöldi flughreyfinga var 66 þús. á síðasta ári, þar af rúmur helmingur í áætlunarflugi. Þetta er mikil og öflug starfsemi eins og áður hefur komið fram.

Ég hef verulegar áhyggjur, virðulegi forseti, eftir að samgöngumiðstöðvarbyggingin var slegin af af núverandi borgaryfirvöldum, og hvað þau eru líkleg til að gera. Þess vegna segi ég um framtíðarstaðsetningu: Nefndir á nefndir ofan hafa unnið og nokkrir kostir verið skoðaðir, Löngusker, Hólmsheiði, Álftanes o.s.frv. Staðreyndirnar eru hins vegar þær: Árið 2016 rennur út leyfi fyrir norður/suður flugbrautinni, þ.e. lengri flugbrautinni — takið eftir, það er bara eftir fimm ár — og árið 2024 fyrir hinni brautinni sem er austur/vestur brautin.

Ef við missum norður/suður brautina frá okkur dettur nýting flugvallarins úr 99% niður í um 70%, sem er auðvitað langt undir rekstrarmörkum fyrir áætlunarflugvöll, því að nýting áætlunarflugvalla þarf helst að vera í kringum 96% til að hún sé viðunandi. Þetta er hin grafalvarlega staða hvað þetta varðar.

Hólmsheiði. Þar hafa rannsóknir, veðurfarsrannsóknir, lengi staðið yfir, allt frá árinu 2006 ef ég man rétt. Þar kemur m.a. fram, eins og vænta mátti út frá staðsetningu og veðurfarslegum forsendum, að lofthiti er að jafnaði mun lægri en á Reykjavíkurflugvelli, skýjahæð sömuleiðis lægri og frost mun algengara eins og vænta má þegar komið er inn í landið frá ströndinni. Vindhraði er meiri og vindhviður hvassari og þótt ekki sé lokið endanlegum mælingum á ókyrrð yfir svæðinu gefur landslagið sterklega til kynna að þarna sé um talsverða ókyrrð að ræða í aðflugi, bæði ef miðað er við veðurfræðilegar forsendur og einnig miðað við reynslu flugmanna sem þekkja þetta svæði harla vel. Fyrrnefnd atriði benda einnig til takmarkana vegna hliðarvinds, sem verður einnig mun algengari, og ekki síst vegna langvarandi frosts í jörðu. Það er mat reyndra flugmanna að svæðið sé illa hæft undir áætlunarflugvöll vegna ókyrrðar. Ég gæti trúað að kostnaðurinn við að byggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði sé kominn upp í kringum 40 milljarða kr. núna. (Forseti hringir.)

Því spyr ég, virðulegi forseti, hæstv. innanríkisráðherra:

Miðað er við sögu núverandi og fyrrverandi borgarstjórna gagnvart flugvellinum og flugstarfsemi í borginni, hvað hyggst (Forseti hringir.) hæstv. innanríkisráðherra gera til að tryggja farsælt og hnökralaust innanlandsflug frá og með árinu 2016 þegar fyrri (Forseti hringir.) brautin verður aflögð?