139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[14:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og innanlandsflugsins er gríðarlegt, þar eru hagsmunir Reykvíkinga mjög miklir eins og fram hefur komið. Um 600 Reykvíkingar hafa bein störf af starfsemi flugvallarins og ef við tökum afleidd störf erum við að tala um hagsmuni Reykvíkinga upp á 1.000 störf. Það munar um minna þegar við horfum upp á atvinnuleysið sem blasir við okkur.

Ef við horfum á það líka hvaða skyldur Reykjavík ber gagnvart landsbyggðinni sem höfuðborg landsins getum við ekki horft fram hjá því að framtíðaruppbygging í heilbrigðisþjónustunni hefur verið ákvörðuð rétt við flugvöllinn þar sem hann er. Fram hefur komið að á hverju ári eru fluttir um 430 einstaklingar af landsbyggðinni með sjúkraflugi til Reykjavíkur sem lenda rétt hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Um helmingur þessara einstaklinga, ríflega 200 manns, er í lífshættu á meðan á slíku flugi stendur. Við erum því ekki að tala um léttvægt málefni þegar kemur að starfsemi innanlandsflugs hér á landi.

Ég fagna þeim tón sem hæstv. innanríkisráðherra hefur slegið í þessari umræðu, að við skulum vinna að sátt um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Við framsóknarmenn höfum ályktað um það að flugvöllurinn eigi að vera staðsettur til framtíðar innan marka höfuðborgarsvæðisins. Ég er þeirrar skoðunar að hann eigi heima í Vatnsmýrinni (Gripið fram í.) burt séð frá því sem gerðist haustið 2008 þegar hér varð stórt efnahagshrun, og við höfum einfaldlega ekki efni á því að byggja flugvöll á Hólmsheiði upp á 40 þús. milljónir. Það er einfaldlega ekki raunveruleikinn í dag. Ég segi því: Við skulum standa vörð um flugvöllinn þar sem hann er (Forseti hringir.) og um íslenskt innanlandsflug.