139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka bæði hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Því miður verður málið rétt einu sinni ekki klárað hér. Það sem hefur komið fram í upptalningu minni um Hólmsheiði er að í raun og veru þarf ekki að stunda þar fleiri rannsóknir. Niðurstaðan er komin. Við stöndum því frammi fyrir tveimur kostum. Annaðhvort verður miðstöð innanlandsflugs áfram í Reykjavík eða flyst suður til Keflavíkur með þeim svakalegu áhrifum sem það mun hafa á flugrekstur. Flugrekstur innan lands mun ekki verða arðbær ef við missum 40%–50% af flugstarfsemi innan lands vegna þessa.

Ég hef því miður ekki tíma til að fjalla um alla ókostina hvað þetta varðar. En gera menn sér t.d. grein fyrir því að sjúkraflug muni lengjast um klukkutíma við keyrsluna frá Keflavík til sjúkrahússins þar sem Landspítalinn er? Að mínu mati, ef Reykjavíkurflugvöllur á að fara, þarf að endurskoða þær hugmyndir sem eru uppi um byggingu Landspítalans þar sem hann er núna. Það getur vel verið að Vífilstaðatúnið komi þá til greina.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hæstv. innanríkisráðherra sagði áðan, að þetta þyrfti að vinna í góðu samkomulagi ríkis og borgar. Það er rétt að skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg en ríkið á rúmlega 40% af landinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er. Við skulum hafa það í huga. Ríkið hefur með það að gera hvernig það ætlar að nýta landið. Ég legg áherslu á gott samkomulag við borgaryfirvöld, eins og ég reyndi að hafa alla tíð sem ég var samgönguráðherra. Það getur ekki verið samkomulag að Reykjavíkurborg komi fram og segi: Reykjavíkurflugvöllur á að fara í burtu og aðgerðir byrja 2016 og allt verður farið 2024. Það er ekki samkomulag. Það er ekki að vinna heiðarlega að lausn málsins. Ég tel nefnilega að það sé hægt að finna viðunandi lausn fyrir báða aðila, breyta skipulaginu á Reykjavíkurflugvellinum og hafa hann þar áfram í breyttri mynd, (Forseti hringir.) til hagsbóta fyrir Reykvíkinga og Reykjavíkurborg.

Að öðrum kosti ítreka ég enn, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þakkir mínar fyrir þessa ágætu umræðu.