139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. félags- og tryggingamálanefnd vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús.

Frumvarpið fjallar í grundvallaratriðum um að skýra réttindi þeirra sem búa í fjöleignarhúsum, réttindi þeirra sem eiga dýr í fjöleignarhúsum og þau skilyrði sem eiga að vera þar um, auk þess sem frumvarpið fjallar um þætti er snúa að haldi leiðsöguhunda fyrir blinda, sjónskerta og aðra fatlaða í viðkomandi húsum.

Þetta frumvarp hefur verið tekið til umræðu hjá félags- og tryggingamálanefnd og nefndin hefur fengið til sín gesti og umsagnir sem eru í grundvallaratriðum jákvæðar, þ.e. bæði umsagnirnar og gestirnir, en þó var nefndinni bent á þætti sem þyrfti að skoða betur.

Ef við förum fyrst í það sem varðar sérþjálfaða leiðsögu- og hjálparhunda er í d-lið 1. gr. frumvarpsins kveðið á um lagareglu sem felur í sér mikilvæga réttarbót fyrir þá sem þurfa á leiðsögu- eða hjálparhundum að halda. Í því sambandi vill nefndin minna á að tiltölulega nýlega fór í gegnum þingið frumvarp um málefni fatlaðs fólks og vonandi á þessu þingi og að hluta til næst haust mun koma fram ítarlegra frumvarp um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Nefndin telur því að það sé ljóst að fyrirliggjandi frumvarp sé mjög mikilvægt skref í þá átt að tryggja réttindi fatlaðs fólks í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna og því ber að fagna.

Töluvert miklar umræður urðu í nefndinni um 4. mgr. d-liðar 1. gr. þar sem fjallað er um ofnæmi. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að sé annar íbúi fjöleignarhúss með ofnæmi þurfi það að vera á svo háu stigi að lyf megni ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhundinn bærilegt til þess að unnt sé að leita lausnar hjá kærunefnd húsamála, þ.e. á andstæðum hagsmunum viðkomandi og þess sem sækir um að fá að halda leiðsöguhund. Gestir komu inn á þetta í allnokkrum mæli í nefndinni. Fram kom á fundi nefndarinnar að það væri fremur fátítt að fólk væri með hundaofnæmi á svo háu stigi að það teldist svæsið þannig að líklega væri þetta ekki sú hætta sem kannski var látið að liggja í frumvarpinu. Engu að síður þarf að vera vakandi yfir því. Það er tiltölulega ólíklegt að leiðsöguhundur sé í fjölbýlishúsi og að þannig hittist á að einstaklingur með ofnæmi á mjög háu stigi sé þar líka. Það þarf að tryggja þegar svona mál koma upp að einhver úrlausn sé á þeim, það er gert í frumvarpinu. Nefndin taldi algjörlega ófært að setja inn í lagatexta að tiltekinn einstaklingur ætti ekki rétt á umsögn eða úrræðum nema hann hefði fyrst prófað einhverja lyfjameðferð. Það væri ekki hægt að skikka menn með lagatexta til að fara í lyfjameðferð við tilteknu vandamáli. Í áliti nefndarinnar gerum við grein fyrir breytingum hvað þetta varðar í breytingartillögum.

Einnig komu í nefndina aðilar sem ræddu um hundafælni. Fælni er fyrirbæri sem er nokkuð algengt á Íslandi og sérstök fælni sem snýr að hundum er hluti af því ástandi. Þeir aðilar sem komu fyrir nefndina töldu að þeir sem væru með alvarlega hundafælni gætu verið um 1,5% þjóðarinnar. Hins vegar var nefndinni einnig bent á af gestum að meðferð við slíku ástandi væri árangursrík og tiltölulega einföld. Ég verð að segja að mér er ekki kunnugt um að beitt sé lyfjameðferð þegar um er að ræða fælni eða þess háttar sem snýr að hundum. Ég tel að ekki sé um sambærilegar aðstæður að ræða og þegar ofnæmi er til staðar.

Hvað varðar almenn ákvæði frumvarpsins kemur fram í athugasemdum að ekki sé ætlunin með frumvarpinu að rýmka reglur um skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignarhúsum. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við gildandi reglur eins og þær hafa verið skýrðar og túlkaðar. Ákvæðin eru því nokkuð ítarleg til að tryggja að reglur séu skýrar og telur nefndin mikilvægt að leitast sé við að koma í veg fyrir deilur um þessi mál.

Nefndin leggur ekki til breytingar á almennum ákvæðum frumvarpsins en telur þó rétt að tiltaka nokkur atriði vegna þeirra sjónarmiða og athugasemda sem komið var á framfæri við hana við umræður og af gestum. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að orðið húsfélag væri ekki skilgreint nægilega vel í lögum um fjöleignarhús og þörf væri á skilgreiningu á því sem og orðinu húsfélagsdeild. Nefndin bendir á að í 10. gr. laganna er húsfélag skilgreint sem félagsskapur allra eigenda um húsið, nánari ákvæði um skyldur, réttindi og starfsemi húsfélags er svo að finna í ýmsum ákvæðum laganna. Þá er í 76. gr. laganna að finna skilgreiningu á húsfélagsdeild. Nefndin telur því ljóst við hvað er átt þegar rætt er um húsfélag og húsfélagsdeildir. Vegna misskilnings um efnið telur nefndin vert að árétta að húsfélag eða húsfélagsdeild getur bundið almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds, samkvæmt a-lið 1. gr. frumvarpsins, fjöldatakmörkunum þannig að hver íbúi megi einungis vera með tiltekinn hámarksfjölda gæludýra.

Því var einnig komið á framfæri við nefndina að upp gæti komið sá möguleiki að íbúi í fjöleignarhúsi hæfi dýrarækt á eign sinni, en um það gilda ákvæði dýraverndunarlaga. Nefndin telur því ekki að hér sé verið að opna fyrir slíka starfsemi.

Nefndinni var bent á að nánari skilgreiningar væri þörf á hvað teldist til leiðsögu- og hjálparhunda. Í 2. mgr. d-liðar í 1. gr. er nákvæmlega skilgreint að um sérþjálfaða hunda er að ræða sem skráðir eru sem leiðsögu- eða hjálparhundar og að fyrir liggi vottorð sérfræðinga um þörf einstaklings og þjálfun hundsins. Nefndin telur með vísan til þessa ætti ekki að vera hætta á misskilningi eða misnotkun ákvæðisins.

Auk þeirrar breytingar sem ég hef þegar gert grein fyrir leggur nefndin til smávægilegar breytingar til leiðréttingar á texta.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita ásamt mér hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður hv. félags- og tryggingamálanefndar, og hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.