139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og skattanefndar í hinu svokallaða sjúkdómatryggingamáli. Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um þetta mál og eytt töluverðum tíma á undanförnum missirum í að skoða það frá öllum hliðum.

Í frumvarpinu er lagt til að bætur úr sjúkdómatryggingum sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattlagðar. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs séu ekki mikil.

Fram kom á fundum nefndarinnar sá vilji Samtaka fjármálafyrirtækja og fleiri að láta skattfrelsi sjúkdómatrygginga eiga bæði við um tryggingar sem teknar hafa verið fyrir tímamark frumvarpsins og til framtíðar. Við umfjöllun nefndarinnar báru samtökin því við að slíkar tryggingar hefðu verið seldar á grundvelli skattfrelsis og að skattyfirvöld hefðu um árabil ekki gert athugasemd við þá tilhögun. Einnig telja samtökin að röksemdir að baki 61. gr. laga um vátryggingarsamninga standi til þess að fara eigi með greiðslur úr sjúkdómatryggingum á sama hátt og greiðslur úr líftryggingu í skattalegu tilliti. Um sé að ræða eingreiðslubætur sem ætlað er að bæta miska vegna erfiðra veikinda en ekki áþreifanlegan kostnað eða tekjutap vegna hins sama.

Ég ítreka að hér er um að ræða eingreiðslubætur en ekki t.d. mánaðarlegar greiðslur.

Ástæða þess að þetta mál er komið hér er að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Laufeyjar Ólafsdóttur gegn íslenska ríkinu frá 7. júlí 2010 var ekki fallist á framangreint sjónarmið um skattfrelsi sjúkdómatrygginga. Var niðurstaðan á þá leið að slíkar bætur væru skattskyldar og að á því léki ekki réttmætur vafi samkvæmt tekjuskattslögum. Ríkisskattstjóri hefur við umfjöllun efnahags- og skattanefndar haldið því fram að skattframkvæmd sé reist í trausti þess að þeir sem inna af hendi skattskyldar greiðslur gefi þær upp til skattyfirvalda.

Á móti vegur sá skilningur sem tryggingafélög og vátryggingarmiðlarar hafa lagt til grundvallar við sölu sjúkdómatrygginga, en það hefur skapað væntingar hjá bótaþegum og fyrirsjáanlegt er að tafir á lausn málsins geti orðið þeim til tjóns. Nefndin er því sammála um að heimila skattfrelsi vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda um líftryggingar. Í ákvæðinu er skilyrt að um eingreiðslubætur sé að ræða.

Meiri hluti nefndarmanna leggur jafnframt til að reglan verði látin gilda til frambúðar og breytir frumvarpinu þannig að gætt verði jafnræðis gagnvart þeim sem keypt hafa eða kaupa munu sjúkdómatryggingar eftir umrætt tímamark. Tillagan styðst enn fremur við þau rök að með henni sé dregið úr óæskilegum áhrifum frumvarpsins á samkeppni á tryggingamarkaði. Þá er tillagan reist á þeirri forsendu að iðgjöld sjúkdómatrygginga séu jafnan greidd af tekjum sem þegar hafa sætt skattlagningu. Loks hafa við meðferð málsins verið nefnd dæmi um lönd þar sem bætur úr sjúkdómatryggingum eru ekki skattskyldar, þar með talið í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og hv. þm. Þuríður Backman gera fyrirvara við álitið, en fyrirvarinn lýtur að þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarmanna leggur fram. Undir þetta álit rita Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, Tryggvi Þór Herbertsson, Árni Þór Sigurðsson, með fyrirvara, Magnús Orri Schram, Birkir Jón Jónsson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, með fyrirvara, og Lilja Mósesdóttir, með fyrirvara.