139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir framsöguna, en ég sakna þess þó nokkuð að fá ekki í máli hans upplýsingar um afstöðu þeirra sem fyrir nefndina komu og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til þess.

Ég er mjög efins um stuðning við þetta mál. Ég lýsti því við 1. umr. Ég á ekki lengur sæti í hv. efnahags- og skattanefnd og kom þess vegna ekki að því að afgreiða málið út úr nefndinni. Efi minn stafar ekki af meinbægni í garð þeirra sem eru sjúkir og hafa keypt sér sjúkdómatryggingar heldur af umhyggju fyrir íslensku heilbrigðiskerfi. Ég óttast að með þeirri breytingu sem hér er lögð til sé verið að teppaleggja fyrir tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi eins og því miður hefur reynst raunin annars staðar á Norðurlöndunum eins og hv. flutningsmaður nefndi.

Til að einkasjúkrahús virki þurfa einstaklingar að geta greitt úr eigin vasa fyrir þjónustuna. Það geta fæstir svo vel sé, það þekkjum við frá Bandaríkjunum. Þess vegna er nauðsynlegt þar sem einkasjúkrahús eru og ríkið greiðir ekki fyrir þjónustuna að einstaklingar kaupi sér sjúkdómatryggingu. Víða þar sem slíkum sjúkrahúsum hefur verið komið upp er gerð krafa til þess að þeir sem þar leggjast inn hafi slíka tryggingu.

Tími minn er að renna út hér, herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram: Hver var afstaða Alþýðusambands Íslands til þessarar breytingar og frumvarpsins í heild?