139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fann ekki umsögn Alþýðusambandsins í gögnum mínum en mun gera það í seinna andsvari og vitna þá beint til þess sem Alþýðusambandið sagði. Efnislega lagði Alþýðusambandið á það áherslu að væri um að ræða greiðslur úr tryggingakerfum sem ættu að standa undir tekjutapi, t.d. gegnum mánaðarlegt tekjutap, væru það skattskyldar tekjur eða greiðslur. Alþýðusambandið lagðist ekki efnislega á móti því fyrir nefndinni að um eingreiðslubætur væri að ræða. Það er þá skilningur meiri hluta nefndarmanna að ekki eigi að skattleggja eingreiðslubætur rétt eins og fjölmargir umsagnaraðilar lögðu áherslu á fyrir nefndinni. Miðað við þann fjölda umsagnaraðila sem annaðhvort kom fyrir nefndina eða skilaði henni áliti var það einungis ríkisskattstjóri sem var meðmæltur því að frumvarpið yrði útfært rétt eins og það leit út er það kom inn í nefndina heldur get ég fullyrt að allir aðrir umsagnaraðilar, kannski að frátöldu Alþýðusambandinu sem setti þennan fyrirvara, hafi verið því meðmæltir að um algert skattfrelsi ætti að vera að ræða, Öryrkjabandalagið, Neytendasamtökin, Krabbameinsfélagið, svo ég nefni nokkra. Krabbameinsfélagið lagði t.d. á það áherslu að sjúkdómatryggingar væru ólíkar sjúkratryggingum almannatrygginga og sköpuðu ekki mismunun við aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Neytendasamtökin segja sjúkdómatryggingunni almennt ekki ætlað að bæta launamissi eða annað fjárhagslegt tap sem hlýst af því að vátryggður greinist með sjúkdóm sem gerir það að verkum að greiðsluskylda tryggingafélags verði virk. „Má segja að sjúkdómatryggingum svipi að mörgu leyti til líftrygginga,“ segir orðrétt í umsögn Neytendasamtakanna.

Meiri hluti nefndarinnar tók undir þetta sjónarmið þó að ég geti tekið undir margt af því sem hv. þingmaður fór í gegnum í andsvari sínu, enda held ég að við séum að mörgu leyti sammála um þá (Forseti hringir.) grunnnálgun sem hún lagði upp með.