139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Herra forseti. Ég er komin upp til að fjalla um breytingartillögu sem ég hef lagt fram í þinginu við breytingartillögur meiri hlutans við frumvarp um breyting á tekjuskattslögum. Ég er með á áliti hv. efnahags- og skattanefndar en þó með fyrirvara. Ég er með á þeim breytingartillögum sem koma frá nefndinni en setti fyrirvara við nefndarálitið og breytingartillögurnar og hyggst ekki samþykkja þær nema breytingartillaga mín, sem ég ætla að kynna á eftir, verði samþykkt.

Breytingartillagan gengur út á að setja sólarlagsákvæði inn í lögin um tekjuskatt þannig að það skattfrelsi sem á að innleiða á bótum sjúkdómatrygginga falli niður í lok árs 2014. Ástæða þess að ég vil að setja inn sólarlagsákvæði er fyrst og fremst sú að knýja fram endurskoðun eða mat á reynslu af þessu skattfrelsi. Eins og við vitum flest hefur skattfrelsi á tryggingum utan almannatryggingakerfisins grafið undan velferðarkerfum, ekki bara í Ameríku og á Bretlandi heldur líka á Norðurlöndunum þar sem búið er að innleiða slíkt skattfrelsi.

Herra forseti. Meiri hlutinn ákvað sem sagt að fara sænsku leiðina, eins og ég kalla hana, og það er að gera þessar bótagreiðslur sjúkdómatrygginga skattfrjálsar en þær hafa verið skattskyldar fram til þessa. Reyndar hefur framkvæmd laganna ekki verið í samræmi við lög og ber að fagna því að taka eigi á þessari lagasniðgöngu, hún er ólíðandi og á að tilheyra fortíðinni.

Ég hef áhyggjur af því að þessi sænska leið, sem ég vil líka kalla millileið, muni ekki duga til að koma í veg fyrir að velferðarkerfið verði tvöfalt, annars vegar velferðarkerfi fyrir þá efnaminni, og verði þá með lágmarksréttindum og lágmarksbótum, og hins vegar velferðarkerfi fyrir þá efnameiri, með viðbótarréttindum og viðbótargreiðslum. Þetta er meginástæðan fyrir því að ég legg til að fram fari endurskoðun í lok árs 2014 þar sem skoðað verði hver reynslan hafi verið af þessu skattfrelsi.

Þó svo skattskylda hafi verið á bótagreiðslum eða eingreiðslum úr sjúkdómatryggingum, og það hafi ekki fram til þessa grafið undan velferðarkerfinu, þá tel ég, herra forseti, að mun meiri líkur séu á því að slíkt skattfrelsi muni grafa undan velferðarkerfinu vegna þess að við höfum verið að skera niður velferðarútgjöld og værum komin inn að beini, eins og svo oft er talað um. Á þessu ári er reyndar verið að fjarlægja beinin úr velferðarkerfinu eða ákveðin réttindi og þjónustu sem við höfum talið nauðsynlegan hluta af velferðarsamfélaginu. Ég hefði talið mjög æskilegt að halda hinum efnameiri inni í velferðarkerfinu til þess einmitt að auka andstöðu almennings við frekari niðurskurð. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að takmarka á allan hátt leiðir efnameiri hópa út úr almannatryggingakerfinu yfir í einhvers konar einkavelferðarkerfi.

Það er von mín, herra forseti, að sem flestir styðji þessa breytingartillögu við breytingartillögur meiri hlutans og frumvarp hæstv. fjármálaráðherra.