139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki ætlunin að vera með yfirlæti í ræðustól varðandi möguleika fólks til að afla sér upplýsinga og vinna úr þeim. En það er misjafnt hversu mikinn tíma fólk hefur til að afla sér upplýsinga á þessari upplýsingaöld. Það gerir það að verkum að ákveðnir hópar hafa eða notfæra sér í mismiklum mæli þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi.

Hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér um að ástæða sé til að kanna hvaða áhrif sú lagabreyting sem meiri hluti hv. efnahags- og skattanefndar leggur hér til muni hafa á velferðarkerfið og ekki síst á þá hópa sem eru tryggðir í núverandi velferðarkerfi og sækja sér síðan viðbótartryggingar út fyrir það, og þá sé ástæða til að skoða reynsluna af þessu skattfrelsi þar sem sama mynstrið virðist ekki vera hér á landi hvað varðar þann hóp sem kaupir sér sérstaklega viðbótartryggingar fyrir utan almannatryggingakerfið.

Hvað varðar rannsóknir á því hverjir nýta sér einkatryggingar þá eru til sérstök fræði sem heita velferðarkerfisrannsóknir. Ekki er hefð fyrir því á þingi að ræðumenn vitni til heimilda fyrir því sem þeir fullyrða en það er sjálfsagt að senda þingmanninum heimildir um það sem ég hef fullyrt varðandi nauðsyn þessarar breytingartillögu.