139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. efnahags- og skattanefnd um breytingar á tekjuskatti sem varða sjúkdómatryggingar. Nokkrir hv. þingmenn hafa tekið til máls. Þar er fyrst að nefna hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem talaði um jafnræði í sjúkrasjóði. Það byggir á ákveðnum misskilningi, herra forseti, vegna þess að iðgjald í sjúkrasjóði er frádráttarbært frá skatti. Það er frádráttarbært frá skatti vegna þess að fyrirtækin draga allan starfsmannakostnað frá skatti og þar af leiðandi er iðgjald í sjúkrasjóði, sem er 1% af launum allra landsmanna, samkvæmt lögum frádráttarbært og þess vegna er eðlilegt að bæturnar séu skattskyldar af því að þær eru óskattað fé.

Iðgjald sjúkratrygginga er ekki frádráttarbært. Þess vegna er um að ræða tvísköttun á því fyrirbæri. Ef menn taka sjúkdómatryggingu greiða þeir fyrst skatta af tekjum sínum, kaupa síðan trygginguna og borga iðgjald sem er þá búið að skattleggja. Því er eðlilegt að þær tryggingar séu skattfrjálsar eins og t.d. kaskótryggingar sem eru nákvæmlega eins. Tryggingarnar taka menn af sjálfsdáðum, af frjálsum vilja og fá greidda eingreiðslu, í þessu tilfelli nákvæmlega eins og ef bíllinn þeirra færi í klessu. Ef bíllinn fer í klessu og þeir kaupa ekki nýjan bíl þá eru þeir með peninga í höndunum, nákvæmlega eins og í þessu dæmi. Ég vona að starfsmenn skattsins fari ekki að grafa það upp og láta kaskótryggingarnar verða skattskyldar. Ég vona það vegna þess að það ríkir svo mikill misskilningur á eðli trygginga og rökréttu skattkerfi að það er með ólíkindum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði líka um aukna áhættu og kvartaði undan því að fólk gæti þá ekki tekið tryggingar. Þetta er ekki rétt. Það eru til tryggingafélög sem sérhæfa sig í því að veita tryggingar fyrir áhættuhópa. Það er til danskt félag sem gerir þetta. Iðgjaldið er að sjálfsögðu mjög hátt vegna þess að í slíkar tryggingar safnast hrakval sem svo er kallað þegar fólk er komið með sjúkdómasögu, t.d. sykursýki, krabbamein eða eitthvað slíkt því að þá er áhættan meiri. Það er nákvæmlega eins og ef maður í Austurstræti mundi keyra á og bera sökina en ætlaði síðan að taka kaskótryggingu á bílinn sinn. (TÞH: Og reykingamenn ...) Líka reykingamenn, það er spurt hvort menn séu miklir reykingamenn og þá hækkar iðgjaldið hjá þeim félögum sem eru með hrakvalið en hin neita að taka manninn í tryggingu vegna þess að honum fylgir aukin áhætta. Hann hefur sjálfur aukið áhættuna.

Það er ekkert skrýtið að ASÍ sé á móti þessu vegna þess að ASÍ hefur byggt upp ákveðið kerfi með aðstoð Alþingis sem kallast sjúkrasjóðir. Sett var í lög á Alþingi að allir Íslendingar ættu að borga í sjúkrasjóð til viðkomandi stéttarfélags. Þar með var tryggð stéttarfélagsaðildin sem menn vildu gjarnan hafa og atvinnurekandinn borgar 1% í sjúkrasjóð. Stéttarfélögin eru í samkeppni um tryggingarnar sem við erum að tala um. En hvers vegna skyldu þessar tryggingar vera seldar svona mikið? Vegna þess að það eru göt í núverandi velferðarkerfi. Sjúkrasjóðirnir eru ekki nægilega vel skilgreindir, þeir tryggja ekki nægilega vel. Í fyrsta lagi eru engar samræmdar reglur til um þá, engin lög, ekkert sem skyldar nema það eitt að lög eru fyrir því að borga 1% iðgjald af launum inn í þetta kerfi. Það eru ekki litlir peningar, herra forseti, það eru 7 þús. milljónir á ári sem renna inn í sjúkrasjóði og engin lög eru um þá. Reyndar tel ég að sjóðirnir séu vel skipulagðir og nokkuð vel haldið utan um fjármálin. Ég hef svo sem ekki stórar áhyggjur af því en mér þykir eðlilegt og ég hef lagt til í hv. félagsmálanefnd að sett verði heildarlög um sjúkrasjóði, nákvæmlega eins og lífeyrissjóði þar sem er líka skylda að greiða í þá.

Það vantar tryggingu fyrir um 40 þús. manns á Íslandi, sennilega fleiri. Það er það fólk sem ekki er í stéttarfélögum. Það eru verslunareigendur, trillukarlar og alls konar fólk. (TÞH: Þingmenn.) Þingmenn, einmitt — ég hygg að þingmenn séu ekki með svona tryggingu þó að ég hafi ekki kannað það. Kannski væri ágætt að selja þingmönnum svona hóptryggingu, gera þeim tilboð. Það er hætt við að iðgjaldið yrði hátt vegna þess að áhættan er töluvert mikil. En þetta var útúrdúr.

Velferðarkerfið er illa skipulagt að þessu leyti. Það vantar þessar tryggingar. Það er oft og tíðum lágtekjufólk sem sækir um þær. Ég hlustaði á umræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Tryggva Þórs Herbertssonar um hverjir þyrftu á svona tryggingum að halda. Það eru tveir hópar fjölskyldna, herra forseti, sem þurfa ekki á slíkum tryggingum að halda. Það eru þeir sem eru algerir öryrkjar, eiga ekki neitt og skulda ekki neitt, oft og tíðum fólk sem ekki á börn. Þetta fólk þarf ekki tryggingu og fær heldur ekki tryggingu. Svo er það ríka fólkið, það þarf ekki tryggingu. Það þarf nefnilega ekki tryggingu því að þegar fólk er komið yfir ákveðin eignamörk getur það séð um sig sjálft. Flestir sem eru í þeirri stöðu tryggja sig ekki, þurfa þess ekki, þeir kaupa sér bara nýjan bíl ef hinn fer í klessu, þurfa ekki kaskótryggingu. Það þarf lágtekjufólkið að gera og fólk sem ekki er með miklar eignir en búið að kaupa sér íbúð og skuldar. Það fólk er í hættulegri stöðu og sérstaklega ef það er með börn líka. Ef önnur fyrirvinnan verður veik eða jafnvel báðar þá er það í miklum vanda. Hvernig á að borga af lánunum? Hvernig á að framfæra börnin án þess að fara til félagsþjónustu sveitarfélaganna? Þetta fólk þarf tryggingu og ef það er ekki dekkað af sjúkrasjóðum stéttarfélaganna vegna þess að það er með verslunarrekstur, sjálfstætt starfandi iðnaðarmenn eða sjálfstætt starfandi yfirleitt þá þarf það tryggingu, það er bara þannig. Velferðarkerfið sem þyrfti að dekka þetta er ekki til þrátt fyrir að við séum búin að vera með svokallaða vinstri stjórn núna í tvö ár sem ekkert hefur gert til að laga þetta nema að koma aftan að skattgreiðendum. Það féll reyndar dómur og þá áttu menn að sjálfsögðu að laga þessi lög eins og skot og segja að þetta væri skattfrjálst af því að það er búið að borga skattinn. Nei, þá fóru menn hina leiðina og bönnuðu þetta, velferðarstjórnin sjálf.

Um er að ræða, að mér skilst, eingreiðslu. Ef menn verða veikir eða lenda í slysi fá þeir eingreiðslu. Áður fyrr voru hóplíftryggingar mikið seldar með mánaðarlegum greiðslum í þrjú ár. Þær voru seldar til margra hópa á vinnustöðum og iðgjaldið var mjög samkeppnishæft, þ.e. ekki mikil álagning á áhættunni. En það virðist hafa lagst af af einhverjum ástæðum, sennilega af því að sjúkrasjóðirnir komu inn, það getur vel verið, og þar af leiðandi erum við að tala um eingreiðslur sem má líkja við líftryggingar.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um lagasniðgöngu. Hún talaði líka um efnameira fólk. Ég tel það ekki lagasniðgöngu þegar menn fara að gildandi lögum. Dómurinn kemur ekki fyrr en eftir að lögin hafa verið í framkvæmd í áratugi. Það er ekki eins og menn hafi ekki vitað af þessu, bæði skattyfirvöld og þeir sem keyptu tryggingarnar, enda eru þetta tryggingar sem menn kaupa af frjálsum vilja eins og kaskótryggingar á bíl. Hvað kemur það ríkinu við? Ekki nokkurn skapaðan hlut. En það sem þetta mál gerir, herra forseti, er að skattgreiðandinn verður óöruggur. Hann veit ekki hvað bíður hans. Það eru endalaust að koma upp ný tilfelli. Nýjasta dæmið er fjármagnstekjuskatturinn, að það eigi að leggja fjármagnstekjuskatt upp að 18% eða 20% á allar fjármagnstekjur aftur í tímann þegar skatturinn var miklu lægri. Það er nýjasta útspil skattyfirvalda og framkvæmdaraðila. Þetta allt saman gerir skattgreiðandann svo óöruggan að hann veit ekkert hvar hann stendur, hann veit ekkert hvað bíður hans og ef honum býðst tækifæri þá flýr hann jafnvel land og fer til lands þar sem er stöðugra skattkerfi og ekki eins mikið skattaæði, svo að ég leyfi mér að kalla það svo.

Það er nefnilega ekki einfalt að breyta allt í einu framkvæmd aftur í tímann, bara sisvona, af því að suma langar til að rústa þessu kerfi, þessum sjálfstæðu sjúkratryggingum. Þeir óttast allt sem er í samkeppni við ríkið, allt sem heitir einka-eitthvað. Þeir óttast það því að þeir vita að það býður yfirleitt upp á betri þjónustu og er nær kúnnanum en hið opinbera. Þess vegna óttast þeir slík kerfi og vilja helst slá þau af og skilja fólkið eftir í eymd í þeirri von að það krefjist þá breytinga á velferðarkerfinu sem er í gangi. Þeir hljóta að óttast að velferðarkerfið standist ekki samkeppnina, þ.e. hið opinbera.

Mér finnst, herra forseti, og hef nefnt það, nefndi það í 1. umr., að þegar tryggingar eru hafðar frjálsar þá eigi annaðhvort iðgjaldið að vera skattað eða bæturnar, ekki hvort tveggja og ekki hvorugt — það á hvorki að skattleggja bæði iðgjaldið og bæturnar né hafa iðgjaldið skattfrjálst og bæturnar líka. Það fyrra leiðir til þess að tryggingin dettur niður, hún bara deyr út, það er ekki hægt að hafa kerfi þar sem hvort tveggja er skattað og hið síðara leiðir til misnotkunar þannig að menn geta komið tekjum sínum fram hjá skatti með tryggingakerfinu. Sú grundvallarregla á að vera í kerfinu að annaðhvort séu tekjurnar skattlagðar eða bæturnar. Ef bæturnar hafa tekjuígildi að mestu leyti eða meginhluta mundi ég segja að þær ættu að vera skattaðar eins og sjúkrasjóðirnir og lífeyrissjóðirnir en ef þær hafa hlutaígildi eins og bílar, kaskótryggingar og annað slíkt ætti iðgjaldið að vera skattað. Þetta finnst mér að eigi að vera grundvallarregla; hún er afskaplega fín og rökrétt. En það sem menn eru að gera er afskaplega órökrétt og þá sérstaklega breytingartillagan frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að lögin falli úr gildi. Ég geri ráð fyrir að hún ætli að breyta kerfinu þannig að ekki þurfi slíka tryggingar af því að fólk sé tryggt hjá hinu opinbera. En ég hef enga trú á að það náist í gegn á þeim hraða sem núverandi ríkisstjórn vinnur í velferðarmálum og hagsmunum heimilanna. Hún er að garfa í allt öðru. Hún er að garfa í stjórnlagaráði og aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég horfi á tvo þingmenn Vinstri grænna — við erum að keppast við, öll ráðuneyti undirlögð, að aðlagast og ganga í Evrópusambandið. Það verður dálítið döpur afmælisgjöf þegar þetta fólk verður sjötugt og Ísland er komið inn í Evrópusambandið, en það er önnur saga.

Það sem við ræðum er afturför, komið er aftan að skattgreiðendum sem töldu í góðri trú að þeir gætu fengið þessar bætur skattfrjálsar enda voru þeir búnir að borga skatta af iðgjaldinu.