139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir pínulitlum vonbrigðum með spurningar hv. þingmanns vegna þess að ég fór nákvæmlega yfir öll þessi atriði í ræðu minni. Það bendir til þess að þingmaðurinn hafi ekki haft fyrir því að hlusta á ræðu mína. Ástæðan fyrir því að hinir efnameiri kaupa tryggingar í Bandaríkjunum er sú að þar er heilbrigðiskerfið meira og minna einkarekið og maður þarf að kaupa sér tryggingar til að njóta góðrar verndar. Hér þarf þess ekki.

Það sem ég sagði rétt áðan var að hinir efnameiri þurfa ekki jafnmikið á tryggingunni að halda hér á landi vegna kerfisins (Gripið fram í.) og hinir efnaminni og millitekjuhóparnir þurfa borð fyrir báru sem þeir fá í tryggingunum. Hvað varðar heimildirnar er það staðreynd, og þú getur ekki rengt það, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) að fulltrúar tryggingafélaganna sögðu okkar að þeir hópar sem keyptu helst tryggingar hjá þeim væru þeir tekjulægri og fólk með millitekjur. Þetta eru heimildarmenn mínir, þeir sem komu fyrir nefndina. (Gripið fram í: Þeir eru sölumenn.) Að gefa það í skyn að þeir ljúgi eða eitthvað slíkt er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.