139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt því ekki fram í ræðustól að sölumenn trygginga segðu ósatt á nefndarfundi. Ég bað hv. þingmann um að nefna heimildir sem styddu málflutning hans um að það séu lágtekjuhóparnir sem kaupi sér einkatryggingar en ekki hátekjuhóparnir eins og rannsóknir í Bandaríkjunum sýna. Ég tel að hv. þingmaður hafi ekki heldur hlustað á ræðu mína þar sem hann tók ekki eftir því að ég var að vara við þeirri hættu að við værum á sömu leið með velferðarkerfi okkar og það bandaríska hefur alltaf verið á, þ.e. að þrýsta tekjuhæstu hópunum út úr almannatryggingakerfinu þannig að krafan um gott velferðarkerfi minnki, að þeir hópar sem eru hvað harðastir í þrýstingi á ríkið leysi mál sín í gegnum einkageirann og skilji tekjuminni hópana eftir annaðhvort ótryggða eða lítið sem ekkert tryggða.