139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það hafi verið tryggingasölumenn sem komu á fundi nefndarinnar. Það voru forstjórar íslensku tryggingafélaganna (Gripið fram í.) og við skulum ekki vera að reyna að setja einhvern braskarablæ á það með því að tala um sölumenn trygginga í því sambandi.

Þessar tryggingar hafa verið við lýði hér í 15 ár. Það eru engin merki um það sem hv. þingmaður heldur fram, að við séum að fara yfir í bandarískt kerfi með þessum tillögum. Það er einfaldlega verið að gefa efnaminna fólki og millitekjufólki borð fyrir báru ef upp koma erfiðleikar vegna veikinda.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan, sem hv. þingmaður hlustaði ekki á, hefur aldrei nokkurn tímann verið farið í þá vegferð að fara úr núverandi kerfi yfir í kerfi eins og er í Bandaríkjunum, aldrei. Aftur á móti hafa í gegnum árin verið (Gripið fram í.) prófuð ýmiss konar einkarekin kerfi í 200 löndum heimsins, (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁI): Þögn í salnum.)

(Gripið fram í.) Það hafa verið prófuð kerfi, einkarekin og kerfi eins og er á Íslandi, og það eru blönduðu kerfin sem hafa reynst best. Þingmaðurinn minntist á Austur-Evrópu. Það er bara hugsunarháttur hennar.