139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get mér þess til að spurning hv. þm. Péturs H. Blöndals hafi varðað sjúkrasjóðina og þörf á lagasetningu um þá. Það var nákvæmlega það sem ég var að tala um í ræðu minni hér áðan, þ.e. að ég tel ekki tímabært að ganga jafnlangt og gert er í frumvarpinu heldur þurfi að taka þá löggjöf upp.

Eiga bætur sjúkrasjóðanna að njóta annarrar skattlagningar en þær gera í dag? Á að skattleggja fé sem fólk fær úr fjölskyldu- og styrktarsjóðum verkalýðsfélaganna, á að skattleggja það með sama hætti og lagt er til af flutningsmönnum breytingartillögunnar o.s.frv.? Þetta eru allt atriði sem verður að ræða og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að um þessi mál þarf að tala.

Mér finnst hins vegar ekki að sú leið sem farin er í þessum frumvarpstexta og sérstaklega í breytingartillögunum sé tímabær, hin atriðin þarf líka að ræða.