139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt hér nefndarálit meiri hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um brottfall laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn ýmsa aðila því tengda, bæði frá innanríkisráðuneytinu og frá hagsmunaaðilum og farið yfir umsagnir þeirra.

Með frumvarpinu er stefnt að samræmingu í gjaldamálum og tekjuöflun vegna framkvæmda og reksturs í flugmálum með hliðsjón af breyttri gjaldastefnu á sviði flugmála og í ljósi alþjóðlegrar þróunar og skuldbindinga sem leiðir af EES-samningnum. Með breytingunni er markvisst verið að hverfa frá skatttöku yfir í gjaldtöku sem leiðir af kostnaði við þjónustuna, þ.e. að notandinn greiði í samræmi við kostnað í ríkari mæli en nú er.

Samkvæmt athugasemdum í greinargerð frumvarpsins munu tveir skattstofnar falla niður við framangreinda samræmingu, þ.e. flugvallaskattur og varaflugvallagjald. Við niðurfall skattstofnanna mun gjaldskrá Isavia ohf. hækka sem þeim nemur en þjónustusamningur fyrirtækisins og fjármálaráðuneytisins að sama skapi lækka og staða ríkissjóðs þannig verða óbreytt.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis við frumvarpið kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að í stað þeirra skatta sem ætlunin er að fella niður með frumvarpinu muni Isavia ohf. hækka núverandi gjaldskrá fyrirtækisins sem nemur að minnsta kosti þeim tekjum sem gert er ráð fyrir að núgildandi skattstofnar muni skila samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011.

Það er álit nefndarinnar að samþykkt frumvarpsins hafi ekki í för með sér neina breytingu á högum ríkissjóðs, Isavia ohf., flugrekenda eða flugnotenda. Eins og áður segir fjallaði nefndin ítarlega um málið og tók við gestum og umsögnum. Hún samþykkir að afgreiða málið frá sér einum hug og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir það álit skrifa hv. þingmenn Björn Valur Gíslason, Róbert Marshall, Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ásbjörn Óttarsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Það var sem sagt einhugur í nefndinni um afgreiðslu þessa máls og að leggja það til að það verði samþykkt óbreytt eins og það liggur hér fyrir og því ekki ástæða til að vísa því til frekari umræðu í nefndinni.