139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

úttekt á öryggisútbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

276. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt hér nefndarálit samgöngunefndar um þingsályktunartillögu um úttekt á öryggisbúnaði í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi.

Nefndin fjallaði um málið og reifaði það frá ýmsum hliðum. Meðal annars var kallað eftir áliti Siglingastofnunar á stöðu öryggisbúnaðar um borð í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi og hvort ástæða væri til að fara í frekari úttekt eða rannsókn á honum.

Nefndin tók málið til umræðu á fundi sínum 21. febrúar sl. Á þeim fundi var lögð fram tillaga um að nefndin sendi Siglingastofnun Íslands og rekstraraðila skipsins skriflegar beiðnir þar sem þess væri óskað að nefndin yrði upplýst um haffærni Herjólfs og látið yrði í té álit á því hvort öryggisbúnaður skipsins stæðist þær kröfur sem gerðar væru til skips af slíkri gerð og eftir atvikum í hvaða aðgerðir væri eðlilegt að ráðast til þess að svo yrði.

Hinn 2. mars sl. svaraði Siglingastofnun Íslands beiðni nefndarinnar með bréfi. Var þar upplýst að öryggisbúnaður Herjólfs uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til hans samkvæmt ákvæðum reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum. Var sérstaklega tekið fram að björgunarbátar skipsins og gúmmíbjörgunarbátar ásamt sjósetningarbúnaði uppfylltu téðar reglugerðir. Framangreindu til viðbótar sendi Siglingastofnun nefndinni staðfestingu á haffærni ferjunnar.

Í þessu ljósi og í ljósi frekari umræðu og upplýsingaöflunar í nefndinni leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt, þó með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Ráðherra kynni samgöngunefnd Alþingis niðurstöður könnunarinnar.

Undir þetta álit skrifuðu nefndarmennirnir hv. þingmenn Björn Valur Gíslason, Róbert Marshall, Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ásbjörn Óttarsson, Mörður Árnason og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Fjarverandi við afgreiðslu þessa máls var hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Sem fyrr afgreiðir samgöngunefnd þetta mál frá sér einum rómi og leggur til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef áður farið yfir.