139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

642. mál
[17:20]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vissulega margslungið mál og ber að skoða það. Áhrifin af hækkandi bensínverði og olíuverði eru mikil mjög víða, ekki bara á fjölskyldur í landinu heldur líka fyrirtæki, ekki síst ferðaþjónustuna, og flutningskostnað kringum landið. Við þurfum að vera vökul innan þings og nefnda þess hvað þennan þátt í efnahag landsmanna varðar. Spurningin getur þá jafnframt verið sú, af því að ég á orðastað við einn af hagfræðingum þingsins: Er það sanngjarnt, miðað við þá óvissu sem jafnan er í heimi hér, hve vísitöluáhrif olíuverðs eru í rauninni orðin mikil í útreikningum okkar? Er það ekki e.t.v. ósanngjarnt miðað við það hversu brýn neysluvara bensín og olíur er í rekstri venjulegra heimila, ég tala nú ekki um heimila úti á landi sem þurfa að sækja þjónustu mjög langt að og fá jafnframt vörur sínar langt að? Er ekki e.t.v. ástæða til að skoða líka þann þátt sem snýr að hlutfalli olíuverðs í vísitölunni, er það endilega heilög tala?

Þetta hefur ekki bara áhrif á lán landsmanna, eins og kom ágætlega fram í framsögu hv. þingmanns, heldur hefur þetta bein áhrif á venjulegt tekjustreymi fólks og hvernig það getur komist af innan síns launamánaðar.