139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

642. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að einbeita mér að því að reyna að svara spurningunni um áhrif olíunnar á vísitöluna. Margir eru ósáttir við það hve margir vöruflokkar hafa áhrif á vísitölu, svo sem tóbak, áfengi, olía o.s.frv., o.s.frv. Allir hafa einhverja skoðun á því.

Vísitalan er í sinni einföldustu mynd tæki til að láta gjaldmiðilinn halda verðmæti sínu, raunverðmæti sínu. Ef við tökum eitthvað út úr vísitölunni, segjum olíuna eða eitthvað annað slíkt, gerum við ekki annað en að skerða eða réttara sagt svindla raunverulega á vísitölunni að því leyti til að gjaldmiðillinn eða verðtryggði þátturinn heldur ekki lengur verðmæti sínu.

Ég hef lýst mig mótfallinn öllum lausnum sem miða að því að vöruflokkar séu teknir út úr vísitölunni til þess að verðlag hækki ekki. Hins vegar held ég að það sé mjög mikilvægt að sú vísitala, verðlagsvísitala, sem Seðlabankinn miðar peningamálastjórn sína við sé án þátta eins og húsnæðis og olíu og kannski einhverra fleiri hrávara, því að það er ljóst að sama hversu hátt Seðlabankinn djöflar vöxtunum, það mun ekki lækka verðbólgu í landinu sem stafar af hækkun vegna innflutnings á eldsneyti.