139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

umsókn fjársterkra aðila um íslenskan ríkisborgararétt.

[10:40]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Á undanförnum dögum hafa borist fréttir af því að fjársterkir aðilar eins og það heitir, tíu fjársterkir aðilar frá Bandaríkjunum og Kanada, hafi óskað eftir íslenskum ríkisborgararétti fyrir sig og börnin sín. Það hefur komið fram í fréttum að um sé að ræða afar fjársterka reynslubolta úr orkubransanum sem hafi hug á að fjárfesta í endurnýjanlegri orku hér á landi. Það er sagt að aðilarnir sem hér um ræðir séu þegar í fyrirtækjarekstri varðandi orkufyrirtæki í Bandaríkjunum og Rússlandi og hafi meðal annars komið að rekstri og afkomu ýmissa vogunarsjóða sem við höfum ekki góða reynslu af á Íslandi í aðdraganda hrunsins og áttu meðal annars stóran þátt í því.

Það kom líka fram í fréttum og hefur verið staðfest að aðilarnir svokölluðu hafi lagt fram persónulegt sakavottorð sem þeir létu eitthvert fyrirtæki útbúa fyrir sig og vinna og átti að sanna sakleysi þeirra og hreinleika á öllum sviðum. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er langt síðan ég hef fundið eins til með þessari þjáðu þjóð og þegar ég horfði á Kastljósið í gær, þennan unga dreng lýsa markmiðum þessara erlendu aðila, þrám þeirra og löngun til að komast inn á íslenskan atvinnumarkað með alla sína peninga. Og leiðbeiningarnar frá honum voru þær að við ættum að líta á það sem sóknarfæri að þessir aðilar vildu eiga heimahöfn á Íslandi.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver er afstaða hennar til þessa máls? Kemur til greina að mati ráðherra að selja ríkisborgararéttinn með þeim hætti sem þar um ræðir eða telur ráðherra hættu felast í því sem þarna er á ferðinni og að við eigum nú þegar að snúast til varnar hvað þetta varðar? Orrustan um Ísland fer nefnilega víðar fram en hér á landi.