139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

umsókn fjársterkra aðila um íslenskan ríkisborgararétt.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haft tök á eða tækifæri til að kynna mér sérstaklega það mál sem hv. þingmaður tekur hér upp og sá ekki Kastljóssþáttinn í gær sem hann nefnir. En eftir því litla sem maður hefur heyrt af þessu, og lýsingu hv. þingmanns á þessum tíu fjársterku aðilum sem hingað vilja leita í endurnýjanlega orku, og að þeir séu að sækja um ríkisborgararétt í því skyni, þá sækir að manni uggur að því er það mál varðar. Þetta mál er í höndum allsherjarnefndar sem ég vænti að skoði það mjög vel og gaumgæfilega. Það er vissulega svo að íslenska þjóðin þarf á erlendri fjárfestingu að halda til að byggja atvinnulífið upp en okkur er auðvitað ekki sama hverjir það eru sem koma hingað, kannski með vafasama fortíð og viðskipti við vogunarsjóði og fleira sem hv. þingmaður nefnir. Við hljótum að vera mjög á varðbergi að því er þetta varðar. Ég treysti allsherjarnefnd fullkomlega til að fara yfir þetta mál vegna þess að það vekur upp áhyggjur og grunsemdir að þeir skulu vera að koma hingað og sækja um ríkisborgararétt í því skyni sem hv. þingmaður nefnir.