139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

rannsókn á stríðsrekstri í Líbíu.

[10:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði bæði Líbíu og Afganistan að umræðuefni og hún velti fyrir sér stöðunni í Líbíu. Það liggur líka fyrir að harðstjórinn í Líbíu lýsti því yfir í þann mund sem hann ætlaði að leggja til atlögu við borgarana í Bengasi að hann mundi engu eira og að hann mundi fara fram af fullkomnu miskunnarleysi gagnvart fólkinu þar. Það á þeirri stundu réði ekki hvað síst ákvörðun öryggisráðsins. Sú ákvörðun tekur algerlega skýrt fram að óheimilt er að beita einhvers konar hersetuliði. Með öðrum orðum er landhernaður útilokaður samkvæmt ákvörðun öryggisráðsins, það liggur algerlega skýrt fyrir.

Að því er Afganistan varðar þá höfum við mannskap þar en við höfum fyrir löngu dregið til baka allt starfslið þar sem starfar beinlínis að virkum hernaði. Eins og hv. þingmaður man vorum við þar með sveit brynvarinna jeppa og segir fátt af því og ekkert fallegt. Í dag erum við með mannskap þar sem sinnir mannúðarstörfum, ekki síst því að byggja upp kvennahreyfingar, ljósmæður og hjúkrunarfólk. Ísland hefur alltaf lagt mjög ríka áherslu á að farið verði eftir mannúðarlögum í öllum átökum, hvort sem það eru átök sem NATO eða aðrir eiga aðild að. Ef tilefni gefst þá situr ekki á Íslandi og hefur ekki setið á Íslandi að óska eftir því að slíkt yrði rannsakað eða taka þátt í málflutningi í þá veru. Dæmi um það er aðild okkar að tillögu um að Gaddafí verði dreginn fyrir alþjóðlegan sakamáladómstól þannig að það stendur síst á okkur að gera það. Það er alveg ljóst hver afstaða okkar er í þessum efnum. (Forseti hringir.) Við viljum að farið sé eftir alþjóðlegum mannúðarlögum.