139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að forsætisráðuneytið hefur haft þetta mál til meðferðar frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir. Það er líka rétt að kærandi var boðaður til fundar í forsætisráðuneytinu í gær til að fara yfir stöðuna og hvað það væri sem forsætisráðuneytið hefði gert frá þeim tíma að úrskurðurinn féll.

Það er nú einu sinni svo að í svona máli er nauðsynlegt að forsætisráðuneytið leiti niðurstöðu eða álits hjá ríkislögmanni sem hefur verið með málið til skoðunar á umliðnum dögum. Ég hef ekki séð niðurstöðu hans að því er þetta mál áhrærir og ég held að sé það fyrsta að fara yfir álit ríkislögmanns í þessu efni. Í annan stað hefur verið skipuð nefnd, sem er náttúrlega óbeint tengd þessu, sem á að bera saman þá niðurstöðu og þær forsendur sem lágu til grundvallar hjá kærunefnd jafnréttismála og þá niðurstöðu sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun sem var tekin um skipun í þetta embætti frá þeim sem um það mál fjölluðu, meðal annars mannauðsstjóra. Það er alveg ljóst að þarna eru mjög mismunandi forsendur lagðar til grundvallar annars vegar hjá kærunefnd og hins vegar hjá þeirri matsnefnd sem fór yfir þetta. Við erum að láta skoða það sérstaklega til að læra af þessum dómi og hvort ástæða sé til að breyta í stjórnsýslunni vegna ráðningarmála út frá þeim forsendum.

Ég vænti þess að niðurstaða geti legið fyrir fljótlega hvaða stefnu þetta mál mun taka. Það er alveg rétt að úrskurður kærunefndar er bindandi nema málið fari fyrir dómstóla og engin ákvörðun hefur verið tekin um það. (Forseti hringir.) Ég hef ekki myndað mér neina skoðun á því og mun ekki gera fyrr en álit ríkislögmanns liggur fyrir.