139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála.

[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það sem hæstv. forsætisráðherra segir snertir kannski tvö mál sem í sjálfu sér er hægt að skilja að. Annars vegar er það niðurstaða í því einstaka máli sem snýr að þessari tilteknu ráðningu sem hefur verið metin, af til þess bærum aðila, í bága við eða sem brot á ákvæðum jafnréttislaga. Hvernig ráðuneytið ætlar að bregðast við því — þar leitar hæstv. forsætisráðherra lögfræðilegrar ráðgjafar og er í sjálfu sér ekki hægt að gera athugasemdir við það. Það er hins vegar um að gera að það gerist hratt þannig að réttarstaðan skýrist í þeim efnum.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. forsætisráðherra nánar um það hvað hún á við með þessari nefnd sem á að fara yfir þessa úrskurði. Nú er ljóst að svoleiðis nefnd mun hvorki geta breytt niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála né komist að einhverri annarri niðurstöðu efnislega. (Forseti hringir.) Er hæstv. forsætisráðherra fyrst og fremst að tala um að nefndin eigi að fjalla um það hvort efna eigi til einhverra lagabreytinga á þessu sviði?